10.5.04

Jæja hélduð þið að Þjóðhildur væri dauð. Nei svo vel er það nú ekki, eitthvert lífsmark er nú með kerlingunni ennþá. En þörf hennar til að opinbera sig fyrir alþjóð hefur dofnað eitthvað upp á síðkastið. Svo er vorið líka komið og miklu skemmtilegra að fara út og pota í moldina en að sitja við tölvu og bulla. Ég fann nýja tegund af skordýri í garðinum hjá mér, mahóníbrúna bjöllu um 3-4 sm á lengd en leit að öðru leyti út eins og járnsmiður. Síðan hef ég frétt að hér sé um glænýja tegund að ræða á Íslandi sem borist hefur með innflutningi á garðplöntum. Sé nú mest eftir að hafa ekki veitt kvikindið til að hafa það til sýnis í krukku. En ég er svo mikill dýravinur að ég drep ekki skordýr ef ég þarf þess ekki. Á þessum síðustu og verstu tímum er ég þó farin að drepa köngulær, a.m.k. þessar sem alltaf vefa fyrir dyrnar heima hjá mér á daginn svo það kostar hreinsun að koma heim eftir vinnu. Því það er með því ógeðslegra sem ég veit að ganga á köngulóarvef.
Þjóðhildi barst kvörtun frá Frakklandi yfir því að hún kemur ekki fram undir nafninu sem er í þjóðskrá heldur dulnefni. Gagnrýnandanum fannst að Þjóðhildur gæti verið hún sjálf fyrst að David Bowie er hann sjálfur. En David þessi heitir í raun David Jones svo ekki kemur hann fram undir réttu nafni frekar en Þjóðhildur. Bestu kveðjur til Frakklands, Hér er tengill á nýjasta spennuþáttinn í íslensku sjónvarpi. Það hallærislegasta sem lengi hefur sést.