27.9.04

Skuldari

Alla mína æfi hef ég reynt að eiga sem minnst vegna þess að mér hefur sýnst það vera eintóm fyrirhöfn að vera að eiga hluti. Ef maður á hús þarf alltaf að vera að þrífa það, mála, raða húsgögnum, borga fasteignagjöld, hreinsa upp vatnsflóð o.fl. miður skemmtilegt. Eins er það að vera að eiga bíl, ekkert nema vesenið. Þessi mótþrói minn hefur ýtt undir alls konar aðkast frá fólki sem er fast á klafa skuldsetningar og trúir því að það sé eini rétti lífsmátinn. "Svo þú varst sex mánuði í Afríku" er sagt með svip sem gefur til kynna að ekki nema brjálað fólk eyði peningunum sínum í þvílíkt fánýti í stað þess að kaupa nýtt sjónvarp eða sófasett á afborgunum. "Já" segi ég og skammast mín lítillega (mjög lítið) að gera fólki gramt í geði með þvílíku kæruleysi. En nú hef ég þroskast sem meðlimur í samfélaginu og er orðin skuldari komin yfir miðjan aldur (miðað við meðalaldur íslenskra kvenna). Það fylgdi því viss kvíðahrollur að skrifa undir skuldabréf frá Íbúðalánasjóði á línuna merkt skuldari. Þar fauk sjálfstæði næstu 20 ára lífs míns. Fjárhagslegt sjálfstæði tilheyrir nú Íbúðalánasjóði. Ég er skuldari eins og allir hinir. Og allt fyrir fasteign, hús sem ekkert er nema skelin utan um mig. Og undralegast er að ég er nokkuð ánægð með þetta og dútla við að mála og sauma gardínur eins og það sé það skemmtilegasta sem nokkur gerir. Hvar er hugmyndafræði hippans? Ég hef selt sannfæringu mína fyrir húseign.