4.10.04

Ég tek þetta allt of alvarlega að skrifa hér fyrir alþjóð. Allt verður að vera svo gáfulegt og sniðugt. Þeir sem hafa gefið mér andsvar á þessi skrif tala alltaf um að ég sé svo sniðug og skemmtileg. Það er virkilega þrúgandi, hvað ef mér dettur ekkert skemmtilegt í hug, hvað ef ég er bara í fýlu og vil helst ekki eiga samskipti við nokkurn mann. Þá eru góð ráð dýr.

Um helgina dvaldi ég á sveitasetri mínu. Lauk við að koma upp gluggatjöldum og hengdi ljónateppið upp á vegg. Þetta fer nú smátt og smátt að líkjast heimili. Mér finnst orðið leiðinlegt að fara á sunnudagskvöldum, mikið vildi ég að einhver byði mér vinnu sem ég fengi fullt af peningum fyrir og ég gæti unnið heima hjá mér í sveitinni. Hjálpaði til við að vigta lömbin, þau komu nú vel út. Ég er búin að leggja inn gott orð fyrir að eignast mína eigin gimbur. Helst vildi ég dóttur 250 vinkonu minnar sem ég gaf kex í sumar. En það verður nú að koma í ljós hvernig hún dæmist eftir sónarinn.