27.4.05

Rótfesta

Á flakki mínu um heiminn hef ég hitt fólk sem hvergi á heima. Það er búið að ferðast svo lengi að það þekkir ekki lengur sína heimabyggð, finnst allir heimóttalegir og hallærislegir þar. Ég ákvað mjög fljótt að vera aldrei svo lengi í burtu að ég hætti að eiga heima einhverstaðar. Ég fór að hugsa um þetta í gær þegar ég fór á tónleika hjá kórnum í kirkjunni okkar. Þar sem ég sat og horfði framan í þessi andlit sem hafa verið mér samtíða alla mína æfi, fólk sem ég veit öll deili á þó ég þekki það misjafnlega mikið. Og þessi hópur af kennslukonum, smiðum, sjúkraliðum og bankastarfsmönnum söng af hjartans list og yfir þeim gnæfði Jesús sem maður hefur horft á í margri leiðinlegri messunni. Þá fór ég að hugsa um að þetta væri mitt fólk og minn staður og mín tónlist og mitt tungumál og mín menning. Hvað ég væri heppin að eiga minn samastað í tilverunni sem ekki breytist á neinn stórkostlegan hátt þó maður hverfi á braut um stundarsakir.