12.4.06

Niður með gulrótamafíuna


Ég lendi stundum í því að sjá hluta af þáttunum um Latabæ enda ekki auðvelt að komast hjá því þegar hver þáttur er sýndur 3 sinnum í viku. Eftir því sem ég horfi á fleiri þætti vorkenni ég Glanna glæp meira. Vesalings Glanni hann er auðsjánlega fórnarlamb mjög harkalegs eineltis því hann leitar sífellt eftir athygli og samskiptum við aðra en kann ekki mannleg samskipti og fær því ekkert nema neikvæða athygli. Og Gulrótamafían með Íþróttaálfinn í fararbroddi gerir ekkert nema brjóta hann niður í stað þess að skilja vandamál hans. Glanni er að sjálfsögðu snillingur, hann smíðar einn og sjálfur hin flóknustu tæki, útbýr sér frábæra búninga og hefur innréttað íbúð sína mjög frumlega. En enginn sýnir verkum hans neina athygli allir benda á hann, loka hann inni í sínum eigin gildrum og hía á hann. Og fá sér bara gulrætur og þykjast vera flottari, frábærari og gáfaðri en aðrir. Eins og það sé gáfulegt að taka heljarstökk fram úr rúminu og fljúga um á priki sem öll eðlisfræðilögmál segja til um að geti ekki haldist á lofti. Mig minnir að skilaboðin í leikritinu um Latabæ hafi verið að fólk ætti að hreyfa sig meira, borða hollari mat, hætta að hanga í tölvunni alla daga og vera góðir við samborgara sína. Þegar fólk lagði af ósiði sína breytti bærinn um nafn og hét eftir það Leikbær. Það er auðséð að barátta Íþróttaálfsins er ekki til neins, engin af brúðunum hefur lagt af ósiði sína, Siggi sæti rífur í sig sælgæti, Nenni níski er alveg eins nískur og hann var og allir sameinast við að leggja Glanna glæp í einelti. Íþróttaálfurinn er auðsjánalega að klikka á einhverju grundvallaratriði fyrst starf hans ber nákvæmlega engann árangur.

4.4.06

Veröldin er stór






Hér má sjá rauðlitað þá hluta heimsins sem ég er búin að skoða. Eins og sést er heilmikið eftir.