29.3.07

Klæðnaður og klæðaburður

Ég lenti í því að sjá einn þátt af Lærlingnum þar sem Donald Trump er að reka atvinnuumsækjendur. Ekki það að ef ég væri ríkur kall myndi ég ekki ráða neinn af þessum vitleysingum. Nema hvað þeir voru að sýna einhverja auglýsingu og allir voru í sparifötunum uppstrílaðir í jakkafötum með bindi. Svo vann annað liðið og fór á ógeðslega flott veitingahús, þá voru allir í gallabuxum og peysu. Skrítið.

Mér finnst líka skrítið í fréttatímanum á Stöð 2 þegar íþróttabullurnar sitja í jarðarfararfötum á barstólum að tala um knattspyrnu. Fötin gefa til kynna að þetta sé alvörumál á ferðinni hvort þessi eða hinn hafi skorað mark í annarri deildinni í Noregi. Talandi um Stöð 2 þá eru allir mjög fínir í fréttatímanum og blaðurþættinum á eftir, karlarnir í jakkafötum og konurnar í einhverjum tískuleppum nema daginn sem fréttatíminn var beint frá Akureyri. Þá voru þau í „úti á landi“ fötunum, hann í flíspeysu og hún í lopapeysu.

Þetta fer að verða pistill í táknfræði klæðaburðar, þetta gamla góða um að fötin skapi manninn. Eitthvað sem Karl bretaprins ætti að hafa í huga þegar hann rekur tískuráðgjafann sem búinn er að segja honum í 50 ár að tvíhneppt föt fari litlum og kubbslegum körlum vel.