13.9.07

Minningar frá Marokkó


Á næsta ári verða 20 ár frá því að ég steig fyrst fæti á heimsálfuna Afríku. Það var einmitt í Marokkó af ferjunni milli Algiceras og Ceuta. Ég man þetta enn því það er ekki á hverjum degi sem maður fer til nýrrar heimsálfu. Ég man eftir Ceuta sem er spænsk borg á meginlandi Afríku. Við vorum þar um hádegisbilið og allir lágu middagslúrinn og ekkert var opið nema tollfrjálsar brennivínsbúðir. Ég man ekki eftir að landamærin tækju langan tíma en ég man eftir ruslahaugunum sem blöstu við þegar komið var inn í Marokkó. Á þeim tíma (ég veit ekki hvernig það er nú) voru þarna ruslahaugarnir fyrir sólarstrendurnar á Spáni. Þarna blakti plastrusl á hveju strái og heilu fjölskyldurnar vöfruðu um í leit að einhverju nothæfu. Má segja að þetta hafi verið eitt harkalegasta menningarsjokk sem ég hef fengið. En þegar við komumst út af ruslahaugunum tók við fallegt landsslag þakið appelsínuekrum. Landið var fagurt og frítt í síðdegissólinni. Ég man að fyrsta kvöldið tjölduðum við nokkuð hátt í fjallshlíð og horfðum yfir grösugan dal. Í hlíðinni á móti var sveitaþorp umlukið grænum ökrum. Við sólsetur tók að hrína asni í þorpinu svo það glumdi í öllu. Þetta er ein af mínum uppáhalds minningum frá Afríku. Ég ferðaðist vítt og breitt um Marokkó vegna þess að við vorum að bíða eftir að fá vegabréfsáritanir til hinna og þessara landa í Vestur Afríku. Við skoðuðum rómverskar rústir í Volubulis, fórum í medínuna í Fez, gengum í Todra gljúfrið og gistum þar í tjaldi bedúina. Við lágum á bekkjum og einn ferðafélaginn sparkaði í hausinn á mér alla nóttina. Við ókum í snjókomu yfir hæstu fjallaskörðin í Atlas fjallgarðinum og sátum uppá svölum á frönsku kaffihúsi og horfðum yfir Djemma el Fna í Marrakesch. Og í hverju þorpi var franskt bakarí þar sem við sátum og drukkum kaffi og átum croissants. En það sem ég man best er eyðimörkin, Sahara eyðimörkin. Á þessum tíma fyrir 20 árum var farið frá Marokkó inn í Alsír. Við fórum frá Marokkó inn í eyðimörkina. Og næturnar í eyðimörkinni eru ein af mínum ljósustu minningum. Að finna sér svefnstað í sandinum, hvolfa skónum sínum (svo ekkert óæskilegt skriði ofan í þá), skríða í svefnpokann og horfa upp í stjörnubjartan himininn. Þögnin er svo mikil að maður heyrir sinn eigin hjartslátt. Ég beið yfirleitt eftir stjörnuhrapi og lagði svo augun aftur og sofnaði. Þetta finnst mér vera eitthvað sem hver maður sem eyðir lífi sínu í rafmagnsljósum þurfi að upplifa.