17.2.04

Þegar maður er sjálfur byrjaður að skrifa svona fer maður ósjálfrátt að lesa blogg annarra. Mér finnst margir vera að þessu til að ausa út neikvæðni og svartsýni. Það er sjálfsagt gott og blessað, þeir eru þá ekki að svekkja sína nánustu með þessu. En ekki nenni ég að lesa svartagallsraus úr einhverju fólki sem ég þekki ekki neitt. Það er gaman að lesa hvað krakkar og unglingar eru að skrifa, þau stunda auðsjáanlega mikla nýsköpun í íslensku máli. Þá þarf maður ekki að hafa áhyggjur, mál sem er í þróun er lifandi mál. Ég er nefnilega ekki mikið fyrir málhreinsun og íhaldsemi í tungumálinu. Mér finnst fyrir mestu að fólk geti tjáð sig á sem fjölbreyttustu máli og án þess að japla og jamla. Því miður eru allt of margir sem ekki kunna að tjá sig og vantar tækin til að orða hugsun sína. Það er vandamálið en ekki það að krakkar skrifa gegt fyrir geðveikt, dingla í staðinn fyrir að hringja og segja mér langar. Þeir sem erfiðast eiga að tjá sig, a.m.k. í sjónvarpinu eru yfirleitt þeir sem eru að tjá sig um sérgrein sína eftir margra ára háskólanám. Þegar fólk getur ekki tjáð sig skammlaust um sitt sérfag þá er eitthvað að. Þetta fólk talar auðheyranlega ekki nógu mikið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home