19.2.04

Ég sauma út. Ég er fíkill. Ég framleiði gagnslausa sófapúða í haugum. Allir sem ég þekki eiga sófapúða frá mér. Þeir vilja ekki fleiri. Hvað á ég að gera við þann sem ég er að sauma núna? Ég held það sé saumað í gegnum mig. Föðursystir mín sem bjó í sama húsi stundaði hannyrðir alla sína æfi. Saumaði harðangur og klaustur, krossspor, góbelín jafnt úttalið sem ámálað. Hún sat alltaf inni í horni í svefnherberginu og útvarpið var í gangi inni í stofu. Það þurfti að hafa útvarpið frekar hátt stillt til að hún heyrði útvarpssöguna eða hvað það nú var sem var í gangi. Uppi á lofti leigði gamall maður sem var mjög heyrnardaufur. Hann stillti útvarpið líka mjög hátt. Ef maður átti leið hjá á kvöldin sá maður hvernig húsið sveigðist eftir látunum í útvarpinu. Og nú sit ég þarna inni og sauma. Ég hef sjónvarpið í gangi en horfi næsta lítið því einbeitingin er öll á krosssaumsmunstrunum. Það er óþolandi þegar eru myndir með einhverju óskiljanlegu tali því þá veit ég aldrei hvað er að gerast. Áður en ég flutti gerði ég næsta lítið af því að stunda handavinnu en núna finn ég hvernig fíknin hellist yfir mig. Það hlýtur að vera blessunin hún frænka mín sem stjórnar þessu að handan.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home