9.2.04

Rigning og hláka. Allt orðið að svelli. Hvers vegna getur snjórinn ekki verið kjur þegar hann er nú einu sinni kominn? Fékk gerfitönn hjá tannlækninum og var fegin að sleppa út með hausinn fullan af blóði og munninn af sílikoni. Hvaða ár var það aftur sem Sílikon fann upp kíttið? Þessi er gamall ég veit ekki af hverju mér datt hann í hug. Sjálfsagt deyfingin að fara úr kjammanum á mér. Er búin að svara í símann í allan dag, með því leiðinlegra sem ég geri. Er yfirleitt svo niðursokkin í það sem ég er að gera að eilífar símhringingar valda því að ég geri ekki neitt annað því ég tapa yfirleitt þræðinum. Varð þess heiðurs aðnjótandi að vera kosin í stjórn starfsmannafélagsins á föstudaginn.

Hamingjusamir stjórnarmenn

Núna er ég byrjuð að sauma út einhyrning í garðinum. Stundaði heimsóknir um helgina. Það var mjög gaman að hitta vini sína og maður gerir ekki nóg af því. Ég er stundum að hugsa um að gerast eins og gömlu konurnar sem heimsóttu pabba í gamla dag. Þær tóku sér viku tvisvar á ári til að heimsækja gamla vini og ættingja. Komu bara og gistu og voru í nokkra daga. Ég held það yrði upplit ef ég mætti í heimsókn til fólks í Reykjavík og segðist ætla að vera í 3 daga. Því ekki myndi ég stoppa lengur því eins og segir í Hávamálum: Ljúfur verður leiður ef lengi á annars fletum situr.
Gott í bili.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home