16.3.04

Hér er mynd frá Lasha. Ég veit ekki hvers vegna ég hugsa svona mikið til Tíbets þessa dagana. En Tíbet er einn af þeim stöðum sem mig langar hvað mest til að heimsækja aftur. Það er eitthvað í nándinni við himininn sem lyftir sálinni á æðra plan og það er ekki bara súrefnisskorturinn sem veldur. Munkarnir í sínum rauðu sloppum setja lit á umhverfið. Þeir eru alls staðar á ferð, hangandi á veitingastöðum og að ferðast þá puttanum um vegina. Þeir eru allt frá ungum drengjum upp í gamla menn. Þó mér þyki athyglisvert og gaman að kynnast Búddatrú og margt í hennar kenningum samræmist betur mínum hugmyndum um lífið og tilveruna get ég ekki tekið hana sem mína. Ég er vesturlandabúi, mótuð af kristinni siðfræði og menningu minni og forfeðra minna. Þess vegna finnst mér að mörgu leiti sorgleg þessi árátta í vesturlandabúum sem halda sig hafa höndlað svör við öllu með því að raka höfuðið, fara að stunda jóga og innhverfa íhugun og gerast búddatrúar. Með þessu finnst mér fólk vera að kaupa ódýra lausn frá hversdagsleikanum. Ef við erum ekki sátt við hver við erum og hvaðan við komum er eitthvað að sem setur kyrjandi í lótusstellingum bæta ekki. En ef það bætir geð einhvers að eyða sumarfríinu í Ashram á Indlandi við að læra ilmolíunudd þá verði þeim að góðu, fólk fer þó ekki í stríð á meðan. En mér má finnast það hlægilegt.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home