25.3.04

Um hamingjuna


Aðdáandi minn, þessi eini, kvartaði yfir því að ég væri alveg hætt að skrifa hér á síðuna. Mér er nú svosem búið að detta ýmislegt í hug til að skrifa um en heilinn er eins og gatasigti eftir hor og hósta síðastliðinnar viku. Ég var búin að ákveða að skrifa um hamingjuna en maður er ekki alveg í stuði til þess þegar kvefpestin ætlar mann lifandi að drepa. En kannski er hollt að hugsa um hversu heppinn maður í raun og veru er að vera tiltölulega frískur, tiltölulega efnaður og búa í tiltölulega öruggu umhverfi. Ég held að þetta sé okkur öllum nauðsynlegt að hafa í huga og vera ánægð með það sem við höfum. Eða kannski jafnvel hamingjusöm. Mér finnst það góð aðferð að safna saman góðu stundunum eins og perlum á band. Grípa óvenju góða stund, staldra þá við og hugsa: "Núna er ég hamingjusamur/söm. Þessa stund ætla ég að muna". Smátt og smátt safnast þessar góðu stundir saman og á erfiðum stundum er hægt að taka fram hamingjuperlufestina og skoða hana. Þá líður manni strax betur. Mínar bestu stundir tengjast margar því að vera ein úti í náttúrunni og upplifa kyrrð og fegurð hennar. Hvort sem það er í Himalaya eða á Kili.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home