17.11.04

Nýr lærdómur

Alltaf er maður að læra eitthvað nýtt. Ég fór með Frænda nr. 1 í tannréttingar á mánudaginn. Hann átti að borga sjálfur svo hann var sendur með ávísun. Í Smáralind ætluðum við að skipta ávísuninni. Fyrst lenti ég inn í Sparisjóðinn, stúlkan sagði mér að það kostaði 150 kr. að skipta ávísun frá öðrum banka og benti mér á að fara upp á loft í Landsbankann. Við upp rúllustigann og þangað. Þar var eins og að ganga í björg, háir, gráir steinsteypuveggir mynduðu göng inn að því allra helgasta þar sem þjónar mammons útdeildu peningunum. Ég er nú ekki svo mikill sveitamaður að ég fattaði ekki fljótlega að til að komast að þurfti að ná númeruðum miða út úr kassa. Ég sá á tölvuskjá að verið var að afgreiða 210 en miðinn sem ég fékk bar númerið 224. Fjandans þurfti ég að hanga lengi í þessum steypukumbalda og hlusta á horaðan strák tala um seinasta fyllerí í símann bara til að spara 150 kr. En fyrst ég fékk sæti á svörtum leðurkubbi ákvað ég að hinkra. Gjaldkerarnir voru tveir og annar afgreiddi 210 meðan hann talaði í símann, sendi hana bakvið og tafði almennt tímann. En hinn gjaldkerinn spændi áfram því flestir virtust hafa tekið númer og farið eitthvað annað. Svo að eftir drjúga stund komst ég að og lagði fram ávísunina. "Það kostar 150 kr. að skipta ávísun eftir kl. fjögur en það er ókeypis að leggja peningana inn á reikning hjá okkur" sagði stúlku greyið. Ég horfði á hana og gat ekki gert að mér kíma svolítið. "Ég ætla nú að nota peningana svo ætli ég verði ekki að spandera 150 kr. í að skipta ávísuninni" sagði ég og tók við 29.850 og gekk út. Ekki spurði hún mig um skilríki þó ég væri ekki útgefandi að ávísuninni og hefði skrifað nafnið mitt aftan á hana í hinum bankanum. Lærdómurinn af sögunni er sá að reyna aldrei að spara 150 kr. í bankaviðskiptum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home