14.12.04

Kaupmannahöfn

Um helgina fór ég til Kaupmannahafnar. Þangað er alltaf gott að koma. Ég kom þangað í fyrsta skipti í nóvember 1980 á leið til Kúbu. Var samferða einhverju fólki sem ég þekkti ekkert og er löngu hætt að þekkja. Við biðum í Kaupmannahöfn frá því að morgunflugið frá Íslandi kom til klukkan 12 um kvöldið. Þó ég hefði verið í Noregi um vorið og sumarið ógnaði mér hversu Kaupmannahöfn var stór og elti þess vegna þá sem virtust sjálfsöruggastir. Það reyndust alvöru drykkjusvolar sem vildu kanna sem flestar krár á sem stystum tíma. Svo ég komst á Hvids vinstue, Skindbukserne, Skarvet og fleiri þekkta staði þennan dag. Og vinirnir orðnir frekar reikulir í spori þegar við loksins komumst út á flugvöll um kvöldið. Þar stóðu allir dönsku kúbuvinirnir í biðröð og voru flestir aðeins búnir að lyfta glasi um daginn þannig að úr varð heljarinnar gleðskapur. Það var svosem gott því okkar beið langt og leiðinlegt ferðalag með austur-þýska flugfélaginu Interflug sem ekki er til lengur og ég efast um að nokkur sakni. Frá Kaupmannahöfn fórum við til Austur-Berlínar, þar biðum við á flugvellinum í nokkra klukkutíma og flugum þaðan til Gander á Nýfundnalandi þar sem var millilent og svo áfram til Havana. Lengsta flug ævi minnar fyrir utan heimferðina sem tók ennþá lengri tíma.

En núna var ég eins og heimamaður, bjó á hóteli á Fredriksberg og tók strætó í allar áttir. Það sem mér þótti skringilegast var að ganga niður Vesterbrogade og fara framhjá Thai Bamboo House sem bauð upp á American Spareribs, Ankara bøfhus og Bhudda barnum við hliðina á kirkjunni. Fannst mér þetta bera vott um að Kaupmannahöfn sé alþjóðlegt samfélag.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home