11.1.05

Áfangi í lífi bíls

Eins og komið hefur fram á þessum síðum er ég stoltur bíleigandi. Bíllinn minn, oft nefndur Ofur-Súbarú, kemur til með að ná merkum áfanga í lífi sínu næstu daga. Þá fer kílómetramælirinn yfir 200.000 km markið. Ég er búin að finna myndavélina og hún er tilbúin til að taka mynd þar og þegar þetta gerist. Ég á mynd af honum við 150.000 km markið tekna á melunum framan við Grjótá með Jarlhetturnar í baksýn. Því þó að Ofur-Súbarú sé að ná nokkuð háum aldri og mikilli reynslu hefur lífið ekki alltaf verið auðvelt. Hann hefur sjaldnast fengið að fara inn, lítið verið ryksugaður og enn sjaldnar bónaður. Lengst af hefur hann verið brúkaður eins og hann væri Hummer. Enda fer hann hlýðinn og góður þangað sem honum er beitt. Hvort sem það eru götur í Reykjavík eða straumvötn á öræfum. Við höfum síðastliðin sumur ferðast fram og aftur um fjallvegi, einstaka sinnum hefur sprungið en Ofur-Súbarú á 3 varadekk svo það hefur ekki komið að sök. Og hvað með það þó unglingabólurnar á afturhlutanum líkist mest slæmu exemi, allir hjólkoppar löngu týndir, beita þurfi sérstöku lagi við að loka afturhleranum og klukkan gangi á einhverjum ókunnum tíma þar sem klukkustundir eru ekki mældar í mínútum og sekúndum. Þetta er það sem gefur einum bíl persónuleika og skapar væntumþykju. Megi hann lifa sem lengst við góða heilsu og kannski tek ég líka mynd við 300.000 km markið.

1 Comments:

Blogger Aldís Hafsteinsdóttir said...

Get ekki annað en glaðst yfir ritsnilld Þjóðhildar. Ísfrúin er reyndar ekki alveg "dauð" nýr pistill í dag!
En eins og þar kemur fram þá er þetta ekki vinnandi vegur þegar netið er að gera frúna gráhærða.
Þjóðhildur og Ísfrúin eiga það þó sameiginlegt að vilja eiga hluti með "reynslu", verst að Volvo I er ekki nálægur til að fagna með Ofur Subaru.

12:25 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home