20.1.05

Mahabalipuram

Mahabalipuram, eða Mamallapuram, var aðal hafnarborg Pallvas-manna sem réðu miklu af suður Indlandi frá 1. til 8. aldar og er nú þekkt sem sá staður þar sem mestur árangur náðist í arkitektúr og höggmyndalist á Indlandi. Undir stjórn Narasimha Varman (um árið 630) fór hafnarborgin að vaxa sem mikil miðstöð listar. Hin glæsilegu hellamusteri og risastórar lágmyndirnar utan á granítklettunum eru einmitt frá sjöundu öld. Musterin eru á heimsminjaskrá og þangað hópast ferðamenn á hverju ári til að skoða.

Það sem minnistæðast er frá Mahabalipuram er hljóðið. Þar hljóma stanslaus högg þar sem slegið er með hamri á meitil þegar verið er að vinna í öllum litlu búðunum þar sem gerðar eru höggmyndir. Helsta atvinnugrein manna í borginni er að framleiða styttur fyrir fólk, til að hafa í musterum eða í heimahúsum. Í dagrenningu setjast menn á hækjur sér og byrja að hamra steininn og sitja svo við fram í myrkur. Úr hverri búð er hrópað: "Hello my friend, come to my shop, for you special price!"
Á síðustu árum hefur Mahabalipuram orðið sífellt vinsælli áfangastaður vestrænna ferðamanna á ferð um Indland. Þar spretta upp ódýr gistiheimili, veitingahús og internetkaffihús. Þar gekk ég um göturnar og naut lífsins. Húkkaði far með Tata-trukk í krókódílagarðinn þar sem ríkir Indverjar sýndu börnum sínum furður náttúrunnar. Borðaði humar á litlu veitingahúsi á ströndinni þar sem fjöldi þjóna velti vöngum á sinn sérindverska hátt. Sat á sólbekk við sundlaugina á fínasta hóteli bæjarins í krafti þess að vera vesturlandabúi þó ég byggi á ódýru gistiheimili neðar í götunni. Þar keypti ég dansandi Shiva sem nú er stofustáss á sveitasetrinu. Þegar ég kvaddi Mahabalipuram kvaddi ég Indland því þaðan fór ég á flugvöllinn til að hefja ferðina heim.

Mahabalipuram er á ströndinni um 40 km. sunnan við Chennai (sem fáfróðir íslenskir fjölmiðlamenn kalla Madras).

Mahabalipuram flæddi í flóðbylgjunni miklu á annan í jólum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home