4.3.05

Tónaflóð

Í gær voru 40 ár frá því að uppáhalds kvikmyndin mín, Sound of music, var frumsýnd. Að því tilefni var diskurinn tekinn fram og horft á Julie dansa um austurísku alpana í gærkvöldi. Ég fæ enn hroll þegar myndavélin svífur yfir þetta dásamlega landslag og allt í einu kemur Julie í ljós og byrjar að syngja The Hills are alive... Betra upphafsatriði í kvikmynd er ekki til. Hvað er það sem gerir þessa mynd svona yndislega? Hvað veldur að fullt af fólki um allan heim horfir á Sound of music þegar það þarf að láta sér líða vel. Kannski það sé þessi gerfiheimur þar sem allir eru glaðir og góðir og hlaupa syngjandi um í dásamlegu landslagi. Svo eru þarna hæfileikarík börn og ást og ill örlög. Þetta er saga sem hefur allt og er mátulega langt frá okkar hversdagslega raunveruleika.

En maður má ekki setja upp bókmenntafræðingsgleraugun, það skemmir alveg upplifunina. Er ekki eitthvað dularfullt við fyrrverandi skipstjóra í austurríska (er ekki Austurríki í miðjum Alpafjöllum?) sjóhernum sem enn gengur í einkennisbúningi, klæðir börnin sín í matrósaföt, bannar þeim að leika sér og stýrir þeim með flautu. Hvað kom fyrir eiginkonu von Trapp, hann hefur ekki alltaf verið til sjós eigandi 7 börn á aldrinum 16 til 5 ára. Hvers vegna er von Trapp með svipu í hendi þegar hann er að tala við greifafrúna? Og hann sveiflar henni ógnandi að mér finnst. Skyldi hann berja börnin sín eða er hann í sadó-masó sambandi við greifafrúna. Og hvernig er það með þjóninn, hann sést ekki nema þrisvar í allri myndinni. Eða þá brúðuleikhúsið, hvað táknar það?

Nei best að halda ekki svona áfram, heldur njóta þess að hrífast með og láta sér líða vel yfir skemmtilegu ævintýri.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home