12.10.05

Ætli það hafi ekki liðið nógu langt núna

til að allir séu hættir að reyna að lesa þetta blogg. En ég verð að reyna að tjá mig hér því núna er ég með KVEFIÐ eina ferðina enn svo ég get ekki talað nema með harmkvælum. Ég endaði á því að fara til læknis í gær og hann var mjög indæll og vildi endilega lækna mig. Ég hef nefnilega verið þannig í mörg ár að byrja daginn á því að snýta upp úr mér alveg ótrúlegu magni af óhroða. Ég vil meina að þetta sé krónískar slímhúðarbólgur sem ég smitaðist af í Kína árið 1994. Þar eru allir nefnilega síhrækjandi út úr sér ógeðinu og slummurnar liggja út um allt. Ég ræddi um þetta vandamál fyrir mörgum árum við gamla lækninn okkar en hann sagði að þetta væri ólæknandi og maður yrði bara að lifa við þetta og það er ég búin að gera þar til í gær að ég hitti lækni sem óður og uppvægur vildi lækna mig. Ég kom heldur betur hróðug til baka í vinnuna búin að fá uppáskrifað hrossapenisílin og stera og hélt ég væri búin að koma mér upp alvöru veiki. Þetta er merkilegt fyrir manneskju sem ekki fannst í tölvunni á heilsugæslustöðinni vegna þess að ég hef ekki komið þar frá því að tölvukerfið var tekið í notkun. Samstarfskonur mínar voru nú fljótar að slá á þetta mont mitt, þær þekktu allar einhvern sem hafði fengið alvarlegri veikindi og þurft í aðgerð og þurft að bora gat á andlitið til að hreinsa út. Svo ég fór bara heim með meðölin mín og afskaplega venjulegt kvef.

1 Comments:

Blogger Aldís Hafsteinsdóttir said...

Þú átt alla mína samúð...
Það er illa gert að gera lítið úr krónískum veikindum, tala nú ekki um þegar þau eru upprunnin í Asíu ! ! !
En vonandi að Eyjólfur hressist svo þú getir mætt í sundleikfimina.
Bestu kveðjur
Aldís

3:38 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home