17.10.05

Uppáhalds borgirnar mínar. Nr. 2 Katmandú

Ég man eftir koma inn til borgarinnar í ljósaskiptunum og sjá allt fólkið, hundana, nautgripina, bílana, mótorhjólin og sjá hvernig myrkrið færðist yfir borgina.
Ég man eftir að sitja uppi á þaki á hótelinu og hlusta á andardrátt borgarinnar sem barst í húminu við sólarlag, fuglarnir sveimandi yfir og bænaflöggin blaktandi á þökum húsa tíbetanna.
Ég man eftir hljómnum frá musterinu á morgnana þegar fólk sló í bjöllu og færði guðunum kókoshnetu, blóm eða eitthvað annað fallegt.
Ég man eftir að sitja í tröppunum og horfa yfir Durbar torg og tala við nepalskan náunga sem bara vildi spjalla, ekki selja mér neitt.
Ég man eftir að villast í hvert skipti sem ég ætlaði að ganga frá Thamel að aðalpósthúsinu, hvernig göturnar liggja einhvern veginn í allt aðra átt en maður heldur.
Ég man þegar rafmagnið fór af á hverju kvöldi þegar dimmdi á þeim tíma þegar allir voru með jólaseríu úti í glugga á ljósahátíðinni.
Ég man eftir götusölunum sem allir buðu það sama: skipta peningum, hass og tiger balm.
Ég man eftir hvítu nauti með rauðmáluð horn liggjandi á miðju hringtorgi og umferðinni í kringum það.
Ég man risastóru leðurblökurnar hangandi í trjánum umhverfis konungshöllina.
Ég man biðröðina í garðinum við indverska sendiráðið tvo heila daga, hvernig allir voru eins og gamlir vinir þegar þeir hittust aftur eftir viku til að sækja vegabréfsáritunina.
Ég man hversu grasið í garðinum við Hótel Ambassador var grænt og vandlega hirt.
Ég man sjóræningjaeintök af amerískum bíómyndum sýndum með tælenskum texta í neplskum veitingahúsum.
Ég man tveir fyrir einn tilboð á grænum, bláum, gulum og rauðum kokkteilum á veitingahúsinu á horninu rétt hjá Katmandu Guesthouse.
Ég man eftir Bufflasteikinni á Everest steikhúsinu, hún stóð svo sannarlega undir væntingum eftir tveggja mánaða núðluát í Kína.
Ég man eftir mönnunum með fótstignu saumavélarnar að bródera hvað sem fólki datt í hug á stuttermaboli.
Snoðrakaða vesturlandabúa að þykjast vera búddamunkar.
Líkbrennslueldana við ána.
Hunda með blómakrans.
Hjólakerrurnar, ruslahaugana, verslanirnar, manngrúann, lyktina, hávaðann, óreiðuna.......

Heimasíða Katmandu

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Hvernig er það með hana Þjóðhildi, koma ekki fleiri uppáhalds borgir? Þetta er nefnilega þrælsniðugt.
Mín var nefnilega að ræða um Katmandú í skólanum og gat ég slegið um mig með tölulegum staðreyndum, uppl. um trúarbrögðin og fleira áhugavert:)
Nú þarf bara Þjóðhildur að koma með borg nr. 3. Ég bíð spennt:)

Kveðjur frá Austurlandi,
Sigurbjörg.

3:13 e.h.  
Blogger Þjóðhildur said...

Ég var ekki nógu hamingjusöm með að vera eins og ferðahandbók. Svo ég breytt um stíl. Vonandi get ég betur komið minni upplifun til skila. Næsta borg kemur bráðlega.

4:05 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home