20.10.05

Uppáhalds borgirnar mínar. Nr. 3 Helsinki

Helsinki er í raun tvær borgir. Sú sem birtist manni í 30° frosti í janúar og sú sem maður upplifir í 30° hita í júlí.
Janúarborgin er grá og köld. Fólk er kappklætt að flýta sér í og úr vinnu. Enginn staldrar við á ferðum sínum, allir virðast vera að flýta sér eitthvað annað en þangað sem þeir eru. Í sporvögnunum sitja rónarnir og þiðna eftir útiveru næturinnar, í stórum frökkum úttroðnum af dagblöðum. Smátt og smátt berst lyktin af þeim um vagninn þangað til miðaeftirlitskonurnar henda þeim út í kuldann aftur. Ég bjó í úthverfi og kom í lestinni á hverjum degi, lestin skældist til og frá á frosnum teinunum sem illa náðu saman vegna þess hvað járn dregst saman í kulda. Fólkið var frosið og passaði sig á að tala ekki við nokkurn mann. Nema ef maður fór heim með síðustu lest um helgar þá voru allir meira og minna góðglaðir og kjaftaði á þeim hver tuska.
Frá aðaljárnbrautarstöðinni fór ég gegnum undirgöngin á áttina að háskólanum. Finnskar skrifstofukonur ganga mjög rösklega, allar í dökkleitum drögtum og skynsamlegum konuskóm. Þetta hraða, ákveðna göngulag bergmálaði í undirgöngunum þar sem þær skunduðu allar hver til sinnar skrifstofu. Í Helsinki snjóar en snjórinn helst kyrr þar sem hann fellur. Ruðningsdeild borgarinnar kemur og keyrir hann út í sjó og svo eru göturnar greiðfærar það sem eftir lifir vetrar. Í hverfinu mínu var byrjað á að ryðja gangstéttarnar að járnbrautarstöðinni og síðan ef tími vannst til voru göturnar ruddar. Enda datt engum í hug að fara á bíl í vinnuna.

Fyrsta maí kemur sumarið til Helsinki. Allt í einu birtist fólk í skærlitum fötum, öll veitingahúsin stilla upp borðum og stólum á gangstéttinni og þar situr fólk með bjórglös í hendi sem spjallar saman og skemmtir sér. Trén og grasið verður grænt og nýstúdentar með hvítar húfur fara syngjandi um á vörubílum, lúðrasveit leikur á Esplanadi, ferjurnar koma fullar af túristum, það eru seld ný jarðarber á sölutorginu og bátarnir koma utan úr skerjagarðinum með nýveidda síld. Enginn er að flýta sér nema ef vera skyldi út úr borginni í sumarhúsið. Borgin er græn og falleg, alls staðar tré og blóm, fólk baðar sig sjó og vötnum og allar konur fara með tuskumotturnar sínar á þar til gerð þvottaplön til að þvo þær. Þá er gaman að ganga um göturnar í gömlu hverfunum þar sem sjá má bestu dæmin um rússneskan jugend-stíl í byggingarlist. Enda lék Helsinki hlutverk rússneskra stórborga í njósnaramyndum hér áður fyrr. Það er hægt að taka ferju út í eyjarnar, liggja þar í grasinu og horfa upp í himininn eða út yfir hafið. Sumarið er tíminn þegar borgin lifnar við og allt er að gerast. Þá er gaman að vera í Helsinki.

Heimasíða Helsinkiborgar

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Legg til að Ráðhildur skipuleggi svona konuferð/systraferð til Helsinki. Mig hefur alltaf langað að koma þangað. OG þá get ég sagt á eftir að ég hafi komið til allra Norðurlandanna nema Grænlands.
Held ég þiggi nú samt ferð að vori til. Annars er ábyggilega líka gaman að kynnast Helsinki í 30°kaddi.
Með kveðju,
Guðrún

3:35 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Sorrý viltu biðja hana Þjóðhildi um að skipuleggja þetta.
Takk

3:35 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Þekki bara Helsinki að vetri, ískalda og frosna. Væri því góð hugmynd að skelli sér þangað að sumri til og upplifa notalegheitin sem svífa greinilega yfir vötnum.
Við systur hefðum reyndar átt að drífa okkur í Norrænafélags ferðina um árið. Það hefði verið sannkölluð upplifun :-)
Bestu kveðjur
Aldís

10:51 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home