22.2.06

Fjallið mitt


Fjallið mitt er Bláfell við Kjalveg. Ég verð alltaf svo glöð þegar ég kem fyrir hornið á Ingólfsfjalli og þarna blasir fjallið mitt við. Oftast, því það er alltaf gott veður í uppsveitunum. Stundum er að vísu þoka og rigning í lágsveitunum svo maður sér ekki til fjalla. Á sumrin er fjallið mitt blátt til að sjá en hvítt á veturna. Þegar nær er komið verður það grátt og svart og grænt að sunnan en svart með hvítum skellum að norðan. Kringum þetta fjall hef ég ferðast í 5 sumur og alltaf sé ég eitthvað nýtt. Þegar ég er á ferð um Bláfellsháls lít ég upp í brekkurnar sem ekki virðast vera svo brattar þegar á þær er horft og hugsa að kannski væri gaman að komast þarna upp einhvern daginn. En sá dagur er ekki enn upprisinn, fjöll eru líka til að horfa á þau. Að norðan er sæti í fjallið þar sem við ímyndum okkur að Bergþór í Bláfelli hafi setið og mænt yfir að Hrefnubúð þegar hann saknaði Hrefnu sem mest og var alveg hættur að hitta hana nema við fiskveiðar á Hvítárvatni. Af Bláfellshálsi finnst mér eins og ég sjái yfir þvert Ísland og get ekki annað en hrifist af því hvað við erum heppin að eiga svona stórkostlegt land.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home