1.3.06

Síminn - huggun í hörðum heimi

Ég tala í símann, nokkuð oft að mér finnst. Ég á meira að segja GSM-síma sem að vísu er ekki notaður nema örsjaldan. En ég hringi það sem ég þarf í vinnunni, tala við systur mínar, flesta daga og jafnvel gamla vini en ekki á hverjum degi. Þetta er tæki sem maður brúkar sem slíkt. Mér finnst kyndugt að horfa uppá fólk sem situr á almannafæri og enginn talar saman, allir tala í sundur hver í sinn síma. Þegar ég þarf að bíða, t.d. á flugvöllum, er ég oft að fylgjast með fólki sem er líka að bíða. Fólk fer og kaupir sér hressingu, sest svo niður og tekur upp símann sinn. Heldur á honum ofur varlega í hendinni og strýkur hann mjúklega. Síðan horfa menn vonaraugum á skjáinn í von um að einsemdinni ljúki brátt. Ef ekkert gerist er hringt eða þá að fólk sendir sms. Horfir svo áfram og vonast til að síminn tengi það við raunveruleikann. Alltaf með símann í hendinni, strjúkandi eins og hann væri hundur eða köttur. Að tala við fólk í kringum sig virðist orðið gamaldags.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home