14.11.06

Í minningu bíls

Fallinn er góður og traustur félagi. Ég ákvað í sumar að þetta yrði síðasta ár Ofur-Subaru. Hann var orðinn svo ryðgaður greyið að hann leit helst út eins og tígrisdýr. En mér var svosem sama ryðblettina á líkamanum það var ryðið í grindinni sem ég hafði áhyggjur af. Botninn var orðinn svo götóttur að þegar ég ók um malarvegi í uppsveitum Árnessýslu heyrðist ekki mannsins mál sökum gauragangs af grjótkasti. Svo Ofur-Subaru fékk ekkert viðhald, var á ónýtum dekkjum og pústið hrunið. En ég gat ekki slitið á strenginn sem hélt okkur saman. Við erum búin að lenda í svo mörgum ævintýrum, fara um óvegi og yfir stórfljót. Og alltaf fór hann í gang tilbúinn að þjóna. En þá kom Hafsteinn Davíðsson til bjargar og skipaði mér að kaupa nýjan bíl, þetta gegni ekki legnur svona. Hann búinn að lesa bílaauglýsingarnar í Fréttablaðinu í margar vikur og benda mér á ákjósanlega bíla. Svo við fórum saman á Selfoss og skoðuðum bíla og ég fann einn rauðan Súbarú sem alveg passaði mér. Þannig að Ofur-Súbarú var tæmdur af nauðsynlegum fylgihlutum: topplyklasetti, startköplum, vatnsbrúsa, smurningsbrúsa, kaðlabendu, strekkiborðum, loftneti, girðingarstaur, ullarteppi, regngalla, 10 kúlupennum, slöngu úr rakstrarvélardekki (gerði ökumannssætið að loftpúðasæti)og varadekki. Að því loknu fór ég á gámasvæðið, fékk vottorð og númeraplöturnar og labbaði heim. Ósköp sá ég nú eftir öldnum félaga þar sem hann stóð og beið örlaga sinna. Rauður dugar nú ágætlega, malar eins og köttur, hendist upp í 120 án þess að ég taki eftir en hann skortir persónuleika. En það stendur vonandi til bóta.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home