28.11.06

Ísland úr Nató - herinn burt


Nýlega datt Dagfari blað Herstöðvarandstæðinga inn um lúguna eins og það hefur gert árum saman. Ég verð að játa að ég varð nokkuð hissa fyrst því ég hafði eins og aðrir orðið vör við að herinn er bara farinn. Ég skoðaði myndirnar í blaðinu eins og ég er vön (þeir stela/fá lánaða ansi góðar skopmyndir) og henti svo blaðinu. Ég hef alla tíð verið ákafur friðarsinni og hernaðarandstæðingur og fundist hernaðarfræði vera leikur karlmanna sem aldrei hafa orðið fullorðnir. Þegar ég hef nennt að hugsa um það líður mér alltaf illa yfir að svona vanþroskaðir karlar fá svona mikla peninga og völd til að leika sér í byssuleik. Og hversu mikil áhrif á líf fólks á þessari plánetu þetta bruðl hefur og hversu auðvelt væri að brauðfæða mannkynið ef hætt yrði í stríðsleiknum. Nema hvað þetta er svo svekkjandi umhugsunarefni að ég hugsa helst ekki um það (gamla góða vandamálafælnin - ég ætti kannski að fara í meðferð).
En þetta með herinn burt. Þegar ég var yngri nennti ég að fara í Keflavíkurgöngur og mæta á mótmælafundi og veifa borðum og fánum og hrópa slagorð (sem ekki er eðlileg hegðun fyrir Íslendinga). Þetta var mikið hjartans mál stórs hóps fólks og stjórnvöld litu alvarlegum augum á þessa vitleysinga sem ekki voru kurteisir við ameríska herinn. Þeir fengu kaldan hroll við tilhugsunina um að herinn færi, Ísland yrði áreiðanlega gjaldþrota. Ég held að fólk þurfi ekki að vera mjög gamalt til að muna þegar þessi viðhorf voru ríkjandi í samfélaginu. Svo bara fór herinn, ekki af því að við sögðum honum að fara, nei það var skriðið og betlað og öllu stolti hent út um gluggann bara til að halda í hann. Herinn bara fór af því að hann nennti ekki að vera hér lengur. Hér var enginn óvinur svo það var ekkert gaman að leika sér í byssuleik. Merkilegast finnst mér samt að Íslendingar ypptu bara öxlum, það var einhvernveginn bara: „Ha, já herinn farinn!! og hvað með það?“ Eins og þetta var búið að vera mikið lífsspursmál, búið að gera þetta að þvílíku máli í áratugi. Svo bara fóru þeir.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þjóðhildur þyrfti endilega að finna sér nýjan málstað til að berjast fyrir!!!
Annars er það já merkilegt hvað Kaninn fór hljóðlega.
Bara farinn áður en við vissum af.

3:37 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home