30.10.07

Tungumálaörðugleikar

Einu sinni gerði ég svolítið af því að kenna útlendingum íslensku. Eitt af mörgu sem vafðist fyrir þeim var beyging íslenskra lýsingarorða. Enda ekki nema von, hvert orð beygist í fjórum föllum, tveimur tölum, þremur kynjum og þremur stigum. Ég skildi ósköp vel þegar blessuðum nemendunum féllust hendur. Við lásum stundum saman Litla kvæðið um litlu hjónin (Við lítinn fjörð í litlum bæ bjó lítil mús...og svo frv.) og undruðumst hversu margir möguleikar voru á að beygja orðið lítill. Komum þó ekkert inn á stigbeyginguna lítill, minni, minnstur.
Samkvæmt minni máltilfinningu er miðstigið notað til samanburðar (Jón er minni en Hallur). Þetta virðist vera liðin tíð. Núna þarf ég að hlusta á hverju kvöldi á Bó segja að mánudagarnir (eða hvaða dagur sem það nú er) séu skemmtilegri á Stöðtvö. Skemmtilegri en HVAÐ, horfa á málningu þorna eða hvað? Ég verð alltaf jafn pirruð þegar samanburðinum er ekki lokið. Spurningarnar hrannast upp og ég fer að hugsa um hvað geti nú verið leiðinlegra en dagskrá Stöðvartvö. Þetta vekur mig til umhugsunar um að valkostirnir séu nú ekki svo margir og því slekk ég yfirleitt á sjónvarpinu og fer að horfa á þvottavélina vinda því það er skemmtilegra en dagskráin á Stöðtvö.

19.10.07

Tilvistarkreppa

Ég tilheyri úti á landi liðinu og er stolt af því. Ég valdi að búa í sveitinni og þess vegna kvarta ég ekki yfir því að búa við einn versta malarveg á landinu. Því eftir að hafa ferðast um landið held ég að við sem búum í sveitum Suðurlands getum státað okkur af því að eiga illfærustu þjóðvegi landsins. Malarvegir á Norðurlandi eru yfirleitt uppbyggðir og ofaníbornir og þulfa ekki að þola þá illu meðferð sem tíðkast á Suðurlandi. Þar fara ekki framhjá 50 Arctic Trucks á 100 km hraða á hverjum degi svo börn og kýr eiga fótum fjör að launa. Til viðbótar er svo allt Yaris-fólkið, allar rúturnar sem fara Gullna hringinn og svo við sem búum við veginn. Það kemur fyrir að við bregðum okkur af bæ. Er nema von að einn lélegur malarveg verði holóttur.

Ég bý semsagt við holóttan malar veg, ég hef ekki netsamband, nema gegnum innhringibúnað, Stöð 2 sést ekki hvað þá einhverjar aðrar sjónvarpsstöðvar aðrar en Sjónvarp allra landsmanna. Útvarpið er svona hipsum hapsum en það er gsm-samband enda eiga Höfuðborgarbúar sumarbústaði í nágrenninu.
Eru þetta ekki allt atriði sem eru baráttumál fólks úti á landi, atriði sem þarf að bæta til að stuðla að því að við séum öll jafnir borgarar þessa lands. En þetta er hlutskipti sem ég hef valið mér svo ég kvarta ekki.

En manni getur nú sárnað þegar við Sunnlendingar erum ekki talin til landsbyggðarfólks. Mér fannst það skrýtið þegar Svæðisútvarp Suðurlands var lagt niður og ástæðan sögð sú að við værum hvort sem er orðin hluti af Höfuðborgarsvæðinu og okkur yrði sinnt úr Reykjavík með fréttir úr okkar nærumhverfi. Ég skoðaði svæðisfréttir á ruv.is, undir Suðurland er nýjasta fréttin frá 29. sept um að það var lokað fyrir heitt vatn í Grafarholti og nú er október næstum á enda runninn. Og af þessum „svæðisfréttum" af Suðurlandi eru tvær sem gætu talist af mínu svæði en það er um veslings manninn sem druknaði í Soginu. Ég hélt að landshlutafréttir væru fréttir sem kannski ættu ekki erindi til allra á landinu og það virðist vera raunin annars staðar. Í svæðisfréttum af Norðurlandi eru fréttir sem Norðlendingar og áhugafólk um Norðurland les. Ég nenni ekki að lesa um Seðlabankann í sjálfheldu eða hlutabréf í Alfrsca sem svæðisfréttir. Ekki heldur hreppsnefndarfréttir úr Reykjavík þó að fjölmiðlaliðinu detti auðsjáanlega ekki í hug að setja það í svæðisfréttir okkar Sunnlendinga.

Það sem í rauninni pirrar mig mest er að við erum ekki talin alvöru dreifbýlisfólk. Þegar ég heimsæki frændfólk mitt fyrir norðan er oft eitthvað verið að hnýta í „ykkur þarna fyrir sunnan“, sem þýðir á Höfuðborgarsvæðinu. Þegar ég svara að ég viti nú ekki svo vel hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í Reykjavík, ég komi þangað svo sjaldan nema til að fara á fundi tengda vinnunni, er horft á mann vanntrúaraugum. Sunnlendingar=Borgarbúar er útbreitt viðhorf sem við sveitamenn á Suðurlandi þurfum að vinna að upprætingu á.