30.10.07

Tungumálaörðugleikar

Einu sinni gerði ég svolítið af því að kenna útlendingum íslensku. Eitt af mörgu sem vafðist fyrir þeim var beyging íslenskra lýsingarorða. Enda ekki nema von, hvert orð beygist í fjórum föllum, tveimur tölum, þremur kynjum og þremur stigum. Ég skildi ósköp vel þegar blessuðum nemendunum féllust hendur. Við lásum stundum saman Litla kvæðið um litlu hjónin (Við lítinn fjörð í litlum bæ bjó lítil mús...og svo frv.) og undruðumst hversu margir möguleikar voru á að beygja orðið lítill. Komum þó ekkert inn á stigbeyginguna lítill, minni, minnstur.
Samkvæmt minni máltilfinningu er miðstigið notað til samanburðar (Jón er minni en Hallur). Þetta virðist vera liðin tíð. Núna þarf ég að hlusta á hverju kvöldi á Bó segja að mánudagarnir (eða hvaða dagur sem það nú er) séu skemmtilegri á Stöðtvö. Skemmtilegri en HVAÐ, horfa á málningu þorna eða hvað? Ég verð alltaf jafn pirruð þegar samanburðinum er ekki lokið. Spurningarnar hrannast upp og ég fer að hugsa um hvað geti nú verið leiðinlegra en dagskrá Stöðvartvö. Þetta vekur mig til umhugsunar um að valkostirnir séu nú ekki svo margir og því slekk ég yfirleitt á sjónvarpinu og fer að horfa á þvottavélina vinda því það er skemmtilegra en dagskráin á Stöðtvö.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ég vil að Þjóðhildur sé duglegri að blogga.
Mér finnst hún afskaplega skemmtileg. Mun skemmtilegri en dagskrá Stöðvar tvö!
GH

2:34 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home