Það er erfitt að vera ofviti.
Á mínu bernskuheimili var alveg sjálfsagt að hafa hlutina á hreinu. Ef verið var að ræða einhver mál eða um löngu dáið fólk og einhver vafaatriði komu upp í samræðum var gripið til handbóka til að fletta upp hlutunum. Ég hef ekki tölu á hversu oft ég var send inn í herbergi til að finna Kennaratalið, Íslenskar æviskrár, Encyclopediu Brittanicu eða Íslenska orðabók. Síðan vorum við systurnar látnar fletta upp á því sem þurfti og svo lásum við það sem skipti máli. Allir hlustuðu af andakt, ræddu síðan um hvort þetta væri nú áreiðanlega rétt með farið hjá höfundinum og stundum var flett um í annarri bók til að bera saman heimildir. Með þessari aðferð foreldra minna tel ég mig hafa lært gagnrýna hugsun, taka hlutina ekki sem gefna, að á hverju máli eru meira en tvær hliðar og löngun til að vita deili á mönnum og málefnum.
Það hefur fylgt mér í gegnum ævina að muna það sem ég las fyrir 10 ára aldur, því man ég undarlegust hluti um menn og málefni. En ég er ekki ofviti eða gáfnaljós, ég veit ekki allt langt frá því. Suma hluti legg ég metnað minn í að vita ekki (t.d. úrslit í íþróttakappleikjum og deili á persónum í mafíumyndum).
Þessi fróðleiksfýsn hefur valdið því að í gegnum tíðina hef ég oft fengið það sem ég kalla Svipinn. Það er þegar fólk lítur á mann með vorkunsemi-öfundar-háðssvipnum og segir "Þú ert bara alger ofviti" eða "Þú veist bara all". Núna er oft talað um nörd sem ekki var til í mínu ungdæmi.
Ég var mjög feimin sem krakki og þetta var það versta sem ég vissi. Því lærði ég mjög fljótt að leggja mig ekki fram í skólanum, að fá 7-8 í einkunn var mjög gott, þá var enginn að fjasa. Þessu hélt ég alla mína skólatíð. Ég hef stundum séð eftir þessari sérvisku því auðvitað átti maður ekki að láta framkomu fólks hafa slík áhrif á sig.
Ég var nú að vona að þetta viðhorf hefði breyst. Að nútímabörn væru metnaðargjörn og dugleg og sjálfsagt að standa sig vel í skólanum. En þegar ég er að tala við unglingana í minni fjölskyldu (sem flest berjast við nördastimpilinn greyin) kemur í ljós að viðhorfið er það sama. Það má helst ekki viðurkenna að maður læri heima, ekki láta í ljós að maður viti nokkurn skapaðan hlut og alls ekki láta nokkurn mann heyra að manni þyki gaman í skólanum. Ætli það breytist nokkuð fyrr en allir hætta að horfa á sjónvarpið og fara að fræða börnin sín. Þetta ætti að vera auðvelt í dag, sæmileg nettenging dugar sem aðgangur að öllum heimsins fróðleik.
Nú fékk ég allt í einu hugljómun, ætli ég sé ekki svona gáfuð af því að foreldrar mínir áttu aldrei sjónvarp!!!
2 Comments:
Pressan hefur haft áhrif, ný færsla komin strax ;-)
Efast ekki um að sjónvarpsleysið hafði sín áhrif og tengslaleysið við umheiminn í Tungunum hefur án efa svipuð áhrif á ungdóminn þar á bæ. Stóðu sig vel í Gettu betur....
Kveðjur frá
AH
"Fjórðungi bregður til fósturs" segir í Njálu.
Sem segir mér að þú hafir verið hnoðuð saman úr fyrirtaks genum.
GH
Skrifa ummæli
<< Home