22.2.05

Lambapottréttur

500 g lambagúllas
2 laukar
1 græn paprika
1/4 dl ananaskurl eða bitar
1/2 dl sveppir + safi
vatn
2 msk tómatpúrra
1 glas mangó chutney (360 gr)
paprikuduft, karrí, salt, pipar
1/4 l rjómi

Brytjið lauk, papriku og sveppi smátt og látið krauma í potti ásamt karrí og paprikudufti. Kjötið brytjað og brúnað vel, kryddað með salti og pipar, látið útí pottinn og soðið þar til kjötið er meyrt. Þykkið með smjörbollu. Að lokum er ananas, tómapúrru og mango chutney bætt út í ásamt rjóma.

Borið fram með soðnum hrísgrjónum, fersku salati og snittubrauði.

Úr bókinni Matartónar frá Lúðrasveit Þingeyinga

Álagsmeiðsli af of miklu kappi við útsaum

Um helgina fór ég í sumarbústað með gömlum vinkonum og við saumuðum út. Sumar konur hafa komið óorði á hannyrðaklúbba með því að gera ekkert nema tala og borða í saumaklúbbum. Ég þekki ekki svoleiðis konur. Við vinnum sko af alvöru að okkar hannyrðum, það er ekki farið í heita pottinn fyrr en allir eru orðnir stífir í herðunum og þá aðeins til þess að hafa heilsu til að sauma meira. Stundum er kappið svo mikið að enginn hefur tíma til að tala en það er nú mjög sjaldan. Oftast er talað jafn hratt og nálarnar ganga. Svona samkomur eru nauðsynlegar til að halda áfram að þekkja vinkonur sínar.

Sjáumst kátar í réttasúpunni í haust stelpur, takiði kallana og krakkana með. Ég er þegar byrjuð að skipuleggja skemmtiatriðin.

Takk fyrir góðar stundir.

Ég er svo skrýtin

að oft festist í mér allt önnur merking orða en hjá venjulegu fólki. Þegar ég var krakki voru oft auglýsingar í útvarpinu frá Vitamálastjóra. Mér fannst þetta hljóta að vera einhver skrifstofa sem héldi utanum alla vitneskju landsmanna. Þangað ætti að tilkynna allt það sem þess virði væri að vita það. Þó auglýsingarnar væru yfirleitt um hvaða vitar væru bilaðir hefur skoðun mín ekkert breyst og oft langar mig að komast í skýrslur Vitamálastjóra, þar er örugglega hægt að fá að vita ýmislegt.

Sama er að segja um ýmsa frasa sem notaðir eru í fréttunum. Þeir valda mér oft heilabrotum þar sem ég sit og hlusta. Í fréttunum deyr fólk aldrei heldur týnir það lífinu. Ég sé þá alltaf fyrir mér fullt af dauðu fólki vafrandi um vígvöllinn, veltandi við draslinu til að finna lífið. En vísast tekst það ekki nema hjá örfáum, þessum sem aftur rísa upp og hafa upplifað lífið fyrir utan kroppinn.

En mesta skemmtun fæ ég út úr að hugsa um formælendurna. Ég skil orðasambandið að formæla einhverjum sem það að blóta einhverjum í sand og ösku. Svo er í fréttunum alltaf talað um formælanda Bandaríkjastjórnar. Er það einhver sem hefur vinnu af því að koma í fjölmiðla og segja: "Helvítis andskotans Bush, djöfuls fíflið hann Rumsfeld, o.s.frv.". Ég bara spyr. Formælandi Ísraelsstjórnar hlýtur að blóta Sharon og félögum eða blótar hann Palestínumönnum. Eða sér formælandi um að blóta lífinu almennt svo stjórnmálamennirnir geti alltaf verið glaðir og jákvæðir. Ég held að það hljóti að vera erfitt starf að vera formælandi. Ekki vildi ég það enda er ég með eindæmum jákvæð manneskja þó ég hafi gaman af útúrsnúningum og hártogunum.