31.3.05

Er vorið komið?

Hér á Íslandi hefur verið heldur umhleypingasamt í vetur. En vonandi er nú vorið komið, svona nokkurn veginn. Í garðinum blómstra nú smápáskaliljur og krókusar en fínu liljurnar sem ég eignaðist eru væntanlega dauðar enda fylgdi þeim fyrirmæli um að taka laukana upp eins og kartöflur sem ég gerði ekki. Páskarnir voru yndislegir, fóru í á efla samfélagið með ættingjum og vinum.
Litli frændi minn stækkar og þroskast hratt, er farinn að borða graut og þykjast vera maður með mönnum. Enda fær hann ómælda athygli eins og vera ber með örverpi.

Mér dettur nú svosem ekkert tímamótamarkandi í hug í dag og læt þetta því nægja, þið vitið þá að ég er enn á lífi.

8.3.05

Á ferð með Lindu

Fyrir nokkrum árum áður en ég gerðist eins einhverf og félagsfælin og ég er í dag var ég í Norræna félaginu. Þetta olli mér oftast hugarangri en stundum var líka gaman. Við stóðum meðal annars fyrir ferðum á vinabæjarmót á Norðurlöndunum. Þeir sem fara í svona ferðir eru flestir komnir yfir sextugt en sumir yfir áttrætt. Við fórum frækna ferð til Danmerkur með 16 manna hóp. Flogið var til Billund því vinabærinn er á miðju Jótlandi. Af miklum metnaði höfðum við skipulagt rútuferð í nokkra daga fyrir og eftir vinabæjarmótið sem átti að vera eina helgi. Til þess að spara höfðum við samband við formann Norræna félagsins í Danmörku Nancy Nielsen(85) og spurðum hvort við fengjum ekki ódýra rútu í nokkra daga. Það var nú ekkert mál og hún kom okkur í samband við Aage Gasbjerg(55). Þegar við komum til Billund beið okkar ekki 16 manna rútukálfur heldur 60 manna strætisvagn og Aage Gasbjerg. Við komum öllum gömlu konunum og ferðatöskunum í strætóinn og Aage ók okkur í náttstað. Um morguninn kom strætisvagninn aftur en nú var Linda(37) við stjórnvölinn. Hún skildi okkur varla og við enn síður hana þegar við reyndum að spjalla. Við hlóðum draslinu í vagninn og dreifðum okkur um strætisvagninn og ókum af stað norður eftir Jótlandi. Það var óneitanlega rúmt um okkur en sætin ekkert sérlega þægileg. Linda talaði í síman en við spjölluðum og hlógum og reyndum að skoða á kortinu hvert við værum að fara. Ferðalagið var frekar tíðindalítið þangað til við komum til Skagen, þar vildum við fara í listasafnið og sjá málverkin. Linda rataði ekki í Skagen en frekar en að spyrja til vegar ók hún um allan miðbæ Skagen í leit að safninu. Íbúar Skagen steyttu óneytanlega að okkur hnefann þegar risa-strætisvagninn ók eftir göngugötunni í miðbæ Skagen og endaði inni á leikvelli við skóla bæjarins. Þar var ekið yfir reiðhjólastatíf yfir á aðra götu þar sem bílaumferð var leyfð. Við fararstjórarnir vorum óneitanlega með hjartslátt eftir þessi ævintýri og reyndum eftir það að sitja við hliðina á Lindu og segja henni til við aksturinn. En Linda skildi bara jósku en ekki fína íslenska skóladönsku svo hún hélt áfram að aka eftir tilfinningu. Á föstudagsmorgun tókum við stefnuna suður aftur því við áttum að vera mætt á móttökuathöfn á vinabæjamótinu klukkan fjögur. Við beindum Lindu inn á hraðbrautina en móts við Álaborg beygir hún allt í einu útaf og ekur inn í miðbæ. Okkur var farið að gruna að ekki væri allt með feldu þegar við vorum komin inn á plan við ákavítisverksmiðjuna í Álaborg. Síðan tók langa stund að komast út úr borginni aftur í föstudagsumferðinni. Nú voru allir eldri borgararnir komnir á taugina hver með sitt kort að segja til vegar. En á hraðbrautina komumst við aftur og ókum í rétta átt. Þegar við áttum u.þ.b. 20 mínútna akstur eftir á áfangastað beygir Linda allt í einu í vestur út af hringtorgi og stefnir í átt að sólarlaginu við vesturströnd Jótlands. Núna var klukkan löngu orðin fjögur og við búin að missa af öllu fjörinu. Með lagni tókst okkur að sannfæra Lindu um að hún stefndi í vitlausa átt og með því að taka völdin tókst ísdrottningunni að koma okkur heilum á húfi á áfangastað um sjöleytið. Vesalings gestgjafarnir sem við áttum að búa hjá voru búnir að eyða föstudagseftirmiðdegi í að bíða eftir þessum óstundvísu Íslendingum. Mikið vorum við fegin að frétta það um helgina að risa-strætóinn var notaður til að flytja fólk á ættarmót og brann í þeirri ferð. Fegin að hann brann ekki meðan við vorum á göngugötunni í Skagen og fegin að við fengum litla sæta rútu og hressan og mannblendinn bílstjóra til að aka okkur það sem eftir lifði ferðar.

4.3.05

Tónaflóð

Í gær voru 40 ár frá því að uppáhalds kvikmyndin mín, Sound of music, var frumsýnd. Að því tilefni var diskurinn tekinn fram og horft á Julie dansa um austurísku alpana í gærkvöldi. Ég fæ enn hroll þegar myndavélin svífur yfir þetta dásamlega landslag og allt í einu kemur Julie í ljós og byrjar að syngja The Hills are alive... Betra upphafsatriði í kvikmynd er ekki til. Hvað er það sem gerir þessa mynd svona yndislega? Hvað veldur að fullt af fólki um allan heim horfir á Sound of music þegar það þarf að láta sér líða vel. Kannski það sé þessi gerfiheimur þar sem allir eru glaðir og góðir og hlaupa syngjandi um í dásamlegu landslagi. Svo eru þarna hæfileikarík börn og ást og ill örlög. Þetta er saga sem hefur allt og er mátulega langt frá okkar hversdagslega raunveruleika.

En maður má ekki setja upp bókmenntafræðingsgleraugun, það skemmir alveg upplifunina. Er ekki eitthvað dularfullt við fyrrverandi skipstjóra í austurríska (er ekki Austurríki í miðjum Alpafjöllum?) sjóhernum sem enn gengur í einkennisbúningi, klæðir börnin sín í matrósaföt, bannar þeim að leika sér og stýrir þeim með flautu. Hvað kom fyrir eiginkonu von Trapp, hann hefur ekki alltaf verið til sjós eigandi 7 börn á aldrinum 16 til 5 ára. Hvers vegna er von Trapp með svipu í hendi þegar hann er að tala við greifafrúna? Og hann sveiflar henni ógnandi að mér finnst. Skyldi hann berja börnin sín eða er hann í sadó-masó sambandi við greifafrúna. Og hvernig er það með þjóninn, hann sést ekki nema þrisvar í allri myndinni. Eða þá brúðuleikhúsið, hvað táknar það?

Nei best að halda ekki svona áfram, heldur njóta þess að hrífast með og láta sér líða vel yfir skemmtilegu ævintýri.

3.3.05

Um akstur og tíma

Fyrir svona 10 árum vorum við Frændi nr. 1 og afi hans í gryfjunni að jafna út súrheyi. Frændinn var svona 5 ára og þurfti margt að spjalla. Grímur frændi hans keyrði í milli með miklum látum eins og unglingar gera gjarnan. Eftir eitt skiptið þegar Grímur var búinn að sturta og keyra burtu með skellum og skarki spyr afi strákinn hvort hann ætli ekki einhverntímann að keyra traktor eins og Grímur. Jú strákur var á því enda með meiriháttar véladellu. En hann vissi líka að menn þyrftu að vera orðnir 14 ára áður en þeir gætu farið að aka traktor í alvöru. Þeir spjölluðu aðeins um það en svo segir strákur mjög áhyggjufullur:"En þá verður þú löngu dáinn afi."
Þessi drengur er í dag 15 ára, ekur traktor alveg eins og Grímur frændi hans gerði hér áður fyrr og afinn er í fullu fjöri.