14.9.05

Réttasúpa

Ég ætla að halda útihátíð á laugardaginn. Gestunum hefur verið boðið og kjötið er komið úr frysti. Við erum búin að skipuleggja ótrúlega andstyggilegan ratleik því núna eru börnin orðin svo stór að það þarf ekki að halda aftur af sér þeirra vegna. Laugardagurinn hefði átt að vera réttardagurinn en þar sem að búið er að lóga öllum kindum í Tungunum verðum við bara að reyna að skemmta okkur án þeirra. Kannski verður bara orka afgangs til að fara á réttaballið, það hefur alltaf verið hindrum að vita að ofvirku karlarnir í Kotinu verða alltaf að fara að raga féð sitt strax daginn eftir réttirnar. Núna geta allir verið þunnir og þreyttir í friði á sunnudaginn.

12.9.05

Lífið

Einu sinni var ég á ritunarnámskeiði og við áttum að halda dagbók í heila viku. Þetta gekk nú ágætlega og skrifaði ég samviskusamlega niður dagleg störf og reyndi einnig að láta hugann reika og láta mér detta eitthvað gáfulegt í hug til að setja í dagbókina. Mér fannst þetta takast nokkuð vel og skilaði henni ánægð með sjálfa mig. Ein af bekkjarfélögunum skilaði engu og afsakaði sig með því að hún hefði lifað svo ákaft að hún hefði ekki mátt vera að því að skrifa. Eftir á að hyggja er hún öfundsverð það er alltaf gott að hafa nóg að gera. Þetta eru skilaboð til ykkar sem kvartið yfir því að ég skrifa sjaldan. Það þýðir bara að ég er upptekin við að lifa.