25.2.06

Uppáhalds borgirnar mínar. Nr. 4 Bumba

Bumba hvar er hún eiginlega? Jú, Bumba er rykugur lítill bær á bökkum Congo-fljóts í landinu sem nú heitir Lýðveldið Kongó. Þangað kom ég eftir viku ferð í gegnum frumskóginn og beið eftir fljótabátnum upp ána til Kisangani. Við vorum að koma frá landamærunum án þess að komast í banka og vorum þess vegna alveg peningalaus. Flestir voru settir inn á næsta bar og drukku þar upp á krít meðan aðrir leituðu að stað til að skipta peningum. Barirnir í Bumba voru lóðir afgirtar með skíðgarði úr bananalaufum og nokkrum olíufötum sem borð og trjádrumbar sem stólar. Þar var afgreiddur besti bjór í heimi, Primus, í hálfslítraflöskum. Síðan var Afríkudiskó spilað í botni og allir dönsuðu af innlifun. Ég hef aldrei séð eins marga dansa eins og Michael Jackson á einu balli. Salernisaðstaðan var bananalaufsveggur sem náði upp í brjósthæð og innan hans var sandlag á jörðinni. Þar gerði fólk sín stykki og lyktin var ólýsanleg. Í Bumba vorum við í 4 daga, fengum að tjalda í garðinum við eitt að hótelum bæjarins, leigðum okkur eitt herbergi til að fara í sturtu. Þar sá ég stærstu kakkalakka sem ég hef nokkru sinni séð. Minnistæðast er þegar við Ian fórum á markaðinn til að kaupa í matinn. Þar var kona að selja einn fisk, hún seldi hann í sneiðum til margra viðskiptavina. Við vildum kaupa allan fiskinn, hún ætlaði aldrei að trúa því að nokkur væri svona ríkur að hann keypti heilan fisk í einu. En hún var mjög glöð þegar viðskiptin höfðu farið fram og hún var komin með dagsinnkomuna á einu bretti. Járnbrautamiðasafnarinn í hópnum fór alla dagana á lestarstöðina því honum var alltaf sagt að lestin kæmi þann daginn. En alltaf beið sama fólkið á stöðinni og ekki var hægt að fá notaða miða meðan lestin kom ekki. Við fórum með fljótabátnum sem er eins og fljótandi smábær sem mjakast upp og niður ána. Báturinn samanstendur af einum dráttarbát og utan á hann eru bundnir alls konar prammar. Við fundum okkur griðastað uppi á þaki og undir dunaði diskó jafnt dag sem nótt. Þaðan hætti maður sér niður í mannþröngina og hávaðann um stund en fór svo aftur upp til að hvíla sig á áreitinu. Ein máltíð á dag var innifalin og þarna borðaði ég krókódílakássu og reykta apa og varð ekki meint af. Að bátnum komu eintrjáningar svífandi þar sem fjölskyldurnar komu til að selja og kaupa vörur og gera sér glaðan dag. Að skemmtuninni aflokinni kvöddu þau og létu strauminn bera sig aftur heim. Við vorum að hugsa um að það hlyti að vera erfiðara þegar báturinn væri á leiðinni niður ána. Það er ein af sterkustu myndum lífs míns að sitja uppi á þaki og horfa yfir ána og frumskóginn á bakkanum. Sérstaklega var áhrifaríkt í dögun að sjá sólina koma upp og mistur næturinnar hverfa smátt og smátt. Heyra hljóð frumskógarins breytast þegar dagurinn fór að ná yfirhöndinni. Síðan var alltaf mjög skrýtið fyrir ferðalang af norðuslóðum að upplifa hversu hratt sólin sest við miðbaug. Um sexleytið fór sólin að síga og klukkan sjö var komið myrkur. Þetta voru erfiðir en góðir dagar sem ég eyddi í Bumba og um borð í bátnum.


Ferðasaga af ánni

Fróðleikur um Kongó

23.2.06

Ég er móðguð..


Ég las það í Fréttablaðinu að Össur, Jón Ársæll og félagar væru fyrstu ferðamennirnir frá Íslandi sem færu til Lomé. En ég? Var ég ekki í heila viku á Robinson Plagé í Lomé og bjó þar í strandkofa með stráþaki og gulum eðlum á veggnum? Fór ég ekki á hverjum degi í sendiráð Gabon og í franska stórmarkaðinn og keypti ís og paté. Fór á markaðinn og skoðaði ótrúlegt úrval af afrískum batikefnum. Fór ég ekki í ferðalag að hæsta fossinum í Togo og dansaði í brúðkaupi í litlu þorpi við veginn. Fólk á ekki að vera með svona yfirlýsingar. Á okkar tímum er alltaf búið að gera hlutina áður.

Síða um Lomé

22.2.06

Fjallið mitt


Fjallið mitt er Bláfell við Kjalveg. Ég verð alltaf svo glöð þegar ég kem fyrir hornið á Ingólfsfjalli og þarna blasir fjallið mitt við. Oftast, því það er alltaf gott veður í uppsveitunum. Stundum er að vísu þoka og rigning í lágsveitunum svo maður sér ekki til fjalla. Á sumrin er fjallið mitt blátt til að sjá en hvítt á veturna. Þegar nær er komið verður það grátt og svart og grænt að sunnan en svart með hvítum skellum að norðan. Kringum þetta fjall hef ég ferðast í 5 sumur og alltaf sé ég eitthvað nýtt. Þegar ég er á ferð um Bláfellsháls lít ég upp í brekkurnar sem ekki virðast vera svo brattar þegar á þær er horft og hugsa að kannski væri gaman að komast þarna upp einhvern daginn. En sá dagur er ekki enn upprisinn, fjöll eru líka til að horfa á þau. Að norðan er sæti í fjallið þar sem við ímyndum okkur að Bergþór í Bláfelli hafi setið og mænt yfir að Hrefnubúð þegar hann saknaði Hrefnu sem mest og var alveg hættur að hitta hana nema við fiskveiðar á Hvítárvatni. Af Bláfellshálsi finnst mér eins og ég sjái yfir þvert Ísland og get ekki annað en hrifist af því hvað við erum heppin að eiga svona stórkostlegt land.