23.12.04

Þjóðhildur í jólaskapi

Það er nú alltaf gaman að undirbúa jólin, það þarf nú ekki að vera mánuð að því. Í gær þreif ég baðið og eldhúsið, það eru þau herbergi sem frekar ógeðslegt er að hafa óhrein, annað verður ekki þrifið heima hjá mér, kannski rykrussað. Því ég ætla að vera á sveitasetrinu um jólin, búin að útvega mér stærsta jólatré sem ég hef nokkurn tíman átt því ekki eru nú húsgögnin að flækjast fyrir því. Nú er bara að athuga hvort eitthvert skraut er til nema sem nægir svona á hægri hliðina. Ég fór og keypti mér jólaföt og Ofursúbarú fékk nýja framrúðu í gær svo hvorugt okkar fer í jólaköttinn. Svo það er bara að lifa daginn í dag af í vinnunni og síðan að fylla Ofursúbarú af gjöfum, jólaskrauti og mat og halda af stað í sveitina í 10° frosti og brakandi snjó.
Bestu óskir um gleðileg jól til allra minni lesenda

14.12.04

Kaupmannahöfn

Um helgina fór ég til Kaupmannahafnar. Þangað er alltaf gott að koma. Ég kom þangað í fyrsta skipti í nóvember 1980 á leið til Kúbu. Var samferða einhverju fólki sem ég þekkti ekkert og er löngu hætt að þekkja. Við biðum í Kaupmannahöfn frá því að morgunflugið frá Íslandi kom til klukkan 12 um kvöldið. Þó ég hefði verið í Noregi um vorið og sumarið ógnaði mér hversu Kaupmannahöfn var stór og elti þess vegna þá sem virtust sjálfsöruggastir. Það reyndust alvöru drykkjusvolar sem vildu kanna sem flestar krár á sem stystum tíma. Svo ég komst á Hvids vinstue, Skindbukserne, Skarvet og fleiri þekkta staði þennan dag. Og vinirnir orðnir frekar reikulir í spori þegar við loksins komumst út á flugvöll um kvöldið. Þar stóðu allir dönsku kúbuvinirnir í biðröð og voru flestir aðeins búnir að lyfta glasi um daginn þannig að úr varð heljarinnar gleðskapur. Það var svosem gott því okkar beið langt og leiðinlegt ferðalag með austur-þýska flugfélaginu Interflug sem ekki er til lengur og ég efast um að nokkur sakni. Frá Kaupmannahöfn fórum við til Austur-Berlínar, þar biðum við á flugvellinum í nokkra klukkutíma og flugum þaðan til Gander á Nýfundnalandi þar sem var millilent og svo áfram til Havana. Lengsta flug ævi minnar fyrir utan heimferðina sem tók ennþá lengri tíma.

En núna var ég eins og heimamaður, bjó á hóteli á Fredriksberg og tók strætó í allar áttir. Það sem mér þótti skringilegast var að ganga niður Vesterbrogade og fara framhjá Thai Bamboo House sem bauð upp á American Spareribs, Ankara bøfhus og Bhudda barnum við hliðina á kirkjunni. Fannst mér þetta bera vott um að Kaupmannahöfn sé alþjóðlegt samfélag.

2.12.04

Jólasveinninn hengdur

Nágranni minn er seríuóður, á við serious seríu-problem að stríða eins og Kristján heiti ég Ólafsson myndi segja. Það er svo sem allt í lagi að setja jólaseríur allan hringinn á húsið og bílskúrinn, vefja 14 m hátt birki með seríu, hafa seríu í hverjum einasta glugga í húsinu og litaskiptandi krans á útidyrunum. Þetta gerir mér ekkert, bara skrautlegt að hafa eitthvað að horfa á. Nema núna er hann búinn að fá sér upplýsta jólasveina, einn er hátt upp í tré og situr þar á plastskorsteini, í öðru tré er sería af jólasveinum sem dingla eins og þvottur á snúru. En það er jólasveinninn sem hangir beint fyrir utan eldhúsgluggann hjá mér sem mér finnst frekar ósmekklegur, hann dinglar þarna í snúru og minnir ekki á neitt annað en hengdan mann. Þar sem hann bærist í okkar landlægu suðaustanátt og rigningu gengur ljósið í honum í hringi eins og leitarljós að leita uppi aftökusveitina. Og þar sem ég stend og vaska upp fer ég alltaf að hugsa um dauða og aftökur. Hvort að nú sé virkilega svo komið í okkar samfélagi að rétt sé að taka jólasveininn af lífi með hengingu. Hann er hvort sem er orðinn handbendi auðvaldsins og kaupahéðnanna. Hvort börnin í húsinu skemmist ekki á sálinni að hafa hengdan jólasvein fyrir utan gluggann. En þetta eru nú bara vangaveltur sem ekki leiða til neins nema að ég er þakklát meðan ekki eru komin baulandi hreindýr á þakið.