20.1.05

Mahabalipuram

Mahabalipuram, eða Mamallapuram, var aðal hafnarborg Pallvas-manna sem réðu miklu af suður Indlandi frá 1. til 8. aldar og er nú þekkt sem sá staður þar sem mestur árangur náðist í arkitektúr og höggmyndalist á Indlandi. Undir stjórn Narasimha Varman (um árið 630) fór hafnarborgin að vaxa sem mikil miðstöð listar. Hin glæsilegu hellamusteri og risastórar lágmyndirnar utan á granítklettunum eru einmitt frá sjöundu öld. Musterin eru á heimsminjaskrá og þangað hópast ferðamenn á hverju ári til að skoða.

Það sem minnistæðast er frá Mahabalipuram er hljóðið. Þar hljóma stanslaus högg þar sem slegið er með hamri á meitil þegar verið er að vinna í öllum litlu búðunum þar sem gerðar eru höggmyndir. Helsta atvinnugrein manna í borginni er að framleiða styttur fyrir fólk, til að hafa í musterum eða í heimahúsum. Í dagrenningu setjast menn á hækjur sér og byrja að hamra steininn og sitja svo við fram í myrkur. Úr hverri búð er hrópað: "Hello my friend, come to my shop, for you special price!"
Á síðustu árum hefur Mahabalipuram orðið sífellt vinsælli áfangastaður vestrænna ferðamanna á ferð um Indland. Þar spretta upp ódýr gistiheimili, veitingahús og internetkaffihús. Þar gekk ég um göturnar og naut lífsins. Húkkaði far með Tata-trukk í krókódílagarðinn þar sem ríkir Indverjar sýndu börnum sínum furður náttúrunnar. Borðaði humar á litlu veitingahúsi á ströndinni þar sem fjöldi þjóna velti vöngum á sinn sérindverska hátt. Sat á sólbekk við sundlaugina á fínasta hóteli bæjarins í krafti þess að vera vesturlandabúi þó ég byggi á ódýru gistiheimili neðar í götunni. Þar keypti ég dansandi Shiva sem nú er stofustáss á sveitasetrinu. Þegar ég kvaddi Mahabalipuram kvaddi ég Indland því þaðan fór ég á flugvöllinn til að hefja ferðina heim.

Mahabalipuram er á ströndinni um 40 km. sunnan við Chennai (sem fáfróðir íslenskir fjölmiðlamenn kalla Madras).

Mahabalipuram flæddi í flóðbylgjunni miklu á annan í jólum.

11.1.05

Áfangi í lífi bíls

Eins og komið hefur fram á þessum síðum er ég stoltur bíleigandi. Bíllinn minn, oft nefndur Ofur-Súbarú, kemur til með að ná merkum áfanga í lífi sínu næstu daga. Þá fer kílómetramælirinn yfir 200.000 km markið. Ég er búin að finna myndavélina og hún er tilbúin til að taka mynd þar og þegar þetta gerist. Ég á mynd af honum við 150.000 km markið tekna á melunum framan við Grjótá með Jarlhetturnar í baksýn. Því þó að Ofur-Súbarú sé að ná nokkuð háum aldri og mikilli reynslu hefur lífið ekki alltaf verið auðvelt. Hann hefur sjaldnast fengið að fara inn, lítið verið ryksugaður og enn sjaldnar bónaður. Lengst af hefur hann verið brúkaður eins og hann væri Hummer. Enda fer hann hlýðinn og góður þangað sem honum er beitt. Hvort sem það eru götur í Reykjavík eða straumvötn á öræfum. Við höfum síðastliðin sumur ferðast fram og aftur um fjallvegi, einstaka sinnum hefur sprungið en Ofur-Súbarú á 3 varadekk svo það hefur ekki komið að sök. Og hvað með það þó unglingabólurnar á afturhlutanum líkist mest slæmu exemi, allir hjólkoppar löngu týndir, beita þurfi sérstöku lagi við að loka afturhleranum og klukkan gangi á einhverjum ókunnum tíma þar sem klukkustundir eru ekki mældar í mínútum og sekúndum. Þetta er það sem gefur einum bíl persónuleika og skapar væntumþykju. Megi hann lifa sem lengst við góða heilsu og kannski tek ég líka mynd við 300.000 km markið.

6.1.05

Nýtt ár - nýjir möguleikar

Allt frí búið í bili, samt huggun að páskarnir eru snemma í ár svo næsta aukafrí verður í mars og febrúar stuttur mánuður þannig að það er bara að þrauka janúar og þá verður veturinn búinn. Jólin búin í dag og gamla árið sprengt fyrir mörgum dögum. Það var nú bara ágætt að koma aftur í vinnuna á nýju ári. Þetta skánar með aldrinum þó svo ég sé búin að reikna út hvenær ég kemst á eftirlaun það verður eftir 5280 daga, getur þó skeikað einum til tveimur til eða frá. Nennti ekki að reikna með hlaupárum og aukafrídögum.
Um jólin kom ég mér loksins til að setja upp í vefstólinn, réðst svo með skærin á lofti að fólki og sannfærði það um að gefa mér fötin utan af sér, klippti þau í ræmur og óf mottu í öllum regnbogans litum. Æðislegt! Verst með vefstólinn, hann verður að vera á einum stað en ég bý á tveimur. Þetta skapar geðklofa því meðan ég er á einums staðnum hugsa ég um allt það frábæra sem ég gæti ofið en þegar ég er á sama stað og vefstóllinn horfi ég á sjónvarpið og kem mér ekki að verki. Svona er maður nú klikkaður. Búin að ákveða hvenær krosssaumshelgin verður, verð að finna krosssauminn sem ég hef ekki snert á svo mánuðum skiptir. Vonandi fell ég ekki í fíknina aftur og hætti alveg að gera annað en að sauma út. Því krosssaumstykki eru sjaldnast til mikils gagns þó þau séu til mikillar prýði.
Gleðilegt nýár og megi 2005 verða besta árið til þessa.