21.3.06

Stærðfræðikeppni grunnskólanna 2006


Er þetta ekki hávaxinn, fallegur og gáfaður unglingur.

6.3.06

Skemmtileg leikhúsferð

Ég fór í leikhúsið á föstudagskvöldið. Það er orðið sjaldgæft að ég hafi mig af stað til að horfa á leikrit núorðið. Að vísu var ég ekki viss um hvaða leikrit ég væri að fara að sjá en mundi að það var einhver stofufarsi. En þegar fólk nennir að fórna frítíma sínum í að setja á svið leikrit er það minnsta sem við andfélagslega fólkið getum gert að fara og horfa á. Ég fór semsagt að sjá „Blessað barnalán“ eftir Kjartan Ragnarsson í Aratungu. Það voru nú ekki margir áhorfendur en samt slæðingur af fólki. Á fremsta bekk sat Kjóastaðafólkið enda 3 leikaranna af þeirri ætt. Á næsta bekk sat Brautarhólsfólkið enda er Bjarni þarna í stjörnuhlutverki. Síðan var þarna slæðingur af sveitungum og þónokkuð af ókunnugu fólki. Leikritið er svona dæmigert misskilningsleikrit þar sem einn fer út um einar dyr þegar annar kemur inn um aðrar. Við töldum 6 úgönguleiðir, af því má ráða að mikið var um misskilning. En allt gekk þetta upp og áhorfendur hlógu sig máttlausa. Svo að þeir sem vita ekki hvað þeir eiga af sér að gera um næstu helgi ættu að panta sér leikhúsmatseðil á Kaffi Kletti og fara svo í leikhúsið í Aratungu.

Sjá nánar hér

1.3.06

Síminn - huggun í hörðum heimi

Ég tala í símann, nokkuð oft að mér finnst. Ég á meira að segja GSM-síma sem að vísu er ekki notaður nema örsjaldan. En ég hringi það sem ég þarf í vinnunni, tala við systur mínar, flesta daga og jafnvel gamla vini en ekki á hverjum degi. Þetta er tæki sem maður brúkar sem slíkt. Mér finnst kyndugt að horfa uppá fólk sem situr á almannafæri og enginn talar saman, allir tala í sundur hver í sinn síma. Þegar ég þarf að bíða, t.d. á flugvöllum, er ég oft að fylgjast með fólki sem er líka að bíða. Fólk fer og kaupir sér hressingu, sest svo niður og tekur upp símann sinn. Heldur á honum ofur varlega í hendinni og strýkur hann mjúklega. Síðan horfa menn vonaraugum á skjáinn í von um að einsemdinni ljúki brátt. Ef ekkert gerist er hringt eða þá að fólk sendir sms. Horfir svo áfram og vonast til að síminn tengi það við raunveruleikann. Alltaf með símann í hendinni, strjúkandi eins og hann væri hundur eða köttur. Að tala við fólk í kringum sig virðist orðið gamaldags.

Minnistæð flugferð

Samstarfskona mín ætlar til Kúbu um páskana, mér finnst það löng ferð til að dveljast í viku. Því ég man eftir því þegar ég fór til Kúbu fyrir 25 árum, þá tók ferðin 30 tíma út en 40 og eitthvað tíma til baka. Ég fór til Kúbu í nóvember 1980 til að byggja hús fyrir sósíalismann, ég á meira að segja viðurkenningarskjal fyrir að vera fyrirmyndarverkamaður. Einn ferðafélaginn orti vísu af því tilefni sem ég kann enn:

Stakkanova stóð þar úppúr
stóra orðu fékk.
Aldrei var á svipinn súr
sífellt vinnan gekk.

Stakkanov var víst frægur fyrirmyndarverkamaður í Sovétríkjunum.

En nóg með það ég ætlaði að segja frá hræðilegustu flugferð lífs míns. Við lögðum af stað frá Íslandi með morgunflugi til Kaupmannahafnar, biðum þar allan daginn, flugum síðan seint um kvöldið til Austur-Berlínar með því fyrirmyndarflugfélagi Interflug, ríkisflugfélagi Austur-þýska alþýðulýðveldisins. Ég hef hvorki fyrr né síðar flogið með vél sem hrikti jafn mikið í, það var eins og nauðsynlegir hlutar vélarinnar væru að detta af. Í Austur-Berlín biðum við lengi en fórum svo í stórri þotu til Gander á Nýfundnalandi, þar var millilent og síðan komið til Havanna um miðjan dag daginn eftir. Þar tók við sósíalísk skriffinska því á þeim árum voru ferðamenn sjaldséðir á Kúbu, börnin á götunum hlupu á eftir okkur og hrópuðu: „rússkí, rússkí“. Næsta mánuðinn áttum við góða daga í vinnubúðum nálægt San Antonio. Við vorum í byggingarvinnu og tíndum appelsínur. Á kvöldin voru svo fyrirlestrar um fyrirmyndarríki sósíalismans. Þarna var drukkið mikið romm og allir dönsuðu rúmbu. Einu fréttirnar sem bárust frá hinum vestræna heimi voru um morðið á John Lennon. Einu ummerkin um jólin voru þegar Svíarnir dönsuðu í kringum 20 sm hátt pappajólatré. Heim á leið var haldið milli jóla og nýárs. Allir voru drifnir út á flugvöll um miðjan dag. Þar var hangið í fríhöfninni í marga klukkutíma við að skoða vindla og romm. Við vorum loksins komin út í vél um níu leytið og allt virtist tilbúið til að leggja af stað. Finna þá ekki flugfreyjurnar, sem voru eins og austur-þýskir kúluvarparar í útliti og framgöngu, laumufarþega á einu salerninu. Upphófust nú mikil læti og gauragangur, manngreyið var dreginn út og buffaður á malbikinu fyrir utan vélina. Skrítið að einhver lagði í að reyna að flýja sósíalismann. Nema hvað, allir voru reknir út úr vélinni, öllum farangri hlaðið á flugbrautina og hver varð að þekkja sína tösku. Allir voru síðan skráðir inn aftur. Þetta tók marga, marga klukkutíma. En loksins eftir langa mæðu tók vélin á loft og við lögðum af stað heim á leið. Mannskapurinn var orðinn slæptur enda langt liðið á nótt og sofnaði fljótt. Enginn fékk að sofa lengi því fljótlega var rifið í öxlina á manni, hrist og hrópað í eyra manns: „das essen“ og bakka skutlað á borðið fyrir framan mann. Ég man ekkert eftir millilendingunum á Gander og í Austur-Berlín en til Kaupmannahafnar komum við um kvöld. Þá var vélin til Íslands löngu farin en flugfélagið sendi okkur á Hótel Globetrotter þar sem ég hrundi í rúmið og rumskaði ekki fyrr en að ferðafélagi barði á hurðina og hrópaði að við værum að verða of sein í flugið heim. Ég man hvað ég varð fegin að komast heim til pabba og mömmu og opna jólapakkana sem biðu eftir mér og fara að sofa í mínu eigin rúmi.
Og ég á eftir að fara aftur til Kúbu, það hlýtur að vera auðveldara að komast í dag fyrst að svona margir fara í skreppiferðir þangað. Mig langar bara ekki mjög mikið að fara í pakkaferð með Íslendingum, mig langar ekki til að minningar um stolta og lífsglaða þjóð spillist við að kynnast fólki sem gengið hefur á vald smjaðri fyrir vestrænum túristum.