A sewing trick that is not taught to seamstresses - even a beginner can ...
Ég tók persónuleikapróf Dr. Phil og fékk þessa niðurstöðu.
Það er alltaf gaman að telja hvað maður er búinn að skoða mikið af heiminum. Samkvæmt þessu hef ég komið til 49 landa og hef skoða 21% af veröldinni. Ég verð að hætta að heimsækja sömu staðina aftur til að ná a.m.k. helmingnum áður en ég verð of gömul. Þetta er nú reyndar ekki mikið að marka. Til dæmis hef ég bara komið til Moskvu en þegar Rússland er valið litast hálfur heimurinn rauður. Fólk er stundum að býsnast yfir þessu flakki á mér og oft að spyrja hvað ég hafi eiginlega ferðast mikið. Hér má sjá það rautt á bláu.
Ég telst nú vera komin á miðjan aldur og get ekki neitað því að stundum finn ég fyrir því að vera komin fast að fimmtugu. En ég hef aldrei verið alvarlega veik, aldrei brotnað, aldrei fengið í bakið, aldrei lagst inn á sjúkrahús og hef helst ekki talað við lækna um æfina. Veit reyndar fátt leiðinlegra að tala um en veikindi og slys. Hélt að svo væri um flest eðlilegt fólk. En í vetur hef ég verið að taka eftir því sem ég vil kalla veikindafíkn jafnaldra minna. Maður má ekki minnast á maður sé með kvef þá uppveðrast þær allar og byrja hver í kapp við aðra að lýsa krankleikum sínum og sinna. Og það er ekkert smá hvað getur amað að venjulegri íslenskri húsmóður, þær eru með ofnæmi, vöðvabólgur, brjósklos, blöðrubólgu, sjóntruflanir o.fl. o.fl. sem ég kann ekki að nefna. Og ef þær eru ekki með alla þessa sjúkdóma sjálfar þá eru það börnin eða maðurinn eða foreldrarnir. Og allar miðast sögurnar að því að sannfæra viðmælandann um að viðkomandi sé svo hrikalega veikur að undur má telja að hann dragi ennþá andann. Konur á mínum aldri virðast allar vera hjá a.m.k. 3 læknum, sjúkraþjálfara, hnykkjara, ilmolíunuddara, í nálastungum og hvað þetta heitir nú allt saman. Mér líst nú ekki á blikuna, þetta eru þó manneskjur á besta aldri, ætli nokkrar jafnöldrur mínar verði eftir til að stjórna eldriborgarafélaginu. Mér finnst þetta áhyggjuefni hvað margt hrjáir íslenskar konur á fimmtugsaldri. Auðvitað eru þetta upp til hópa manneskjur sem hafa unnið fullt starf, komið upp slatta af krökkum og alltaf haft meira að gera en þær mögulega hafa komist yfir. Ég vona bara að þegar hægist um hjá þeim að heilsan batni og þær geti fundið sér eitthvað skemmtilegra að tala um.
Merkilegt það er bara allt í einu komið að því að fara í páskaferðina til Marokkó. Þetta er alltaf jafn skrýtið að skipuleggja eitthvað með árs fyrirvara, ákveða að fara í ferðalag, borga með margra mánaða fyrirvara og svo er allt í einu komið að því að fara. Að sumu leyti finnst mér þetta óþægilegt, mér finnst hálfpartinn maður vera að storka örlögunum, því auðvitað veit enginn hvað framtíðin ber í skauti sér. Eftir ár gæti maður verið dáinn eða fótbrotinn eða íslenska efnahagskerfið hrunið og allt spariféð fokið út um gluggann. En vonandi gerist ekkert meiriháttar áður en flugvélin fer í loftið með okkur systur og ferðafélaga n.k. sunnudagsmorgun. Ég stefni á að skrifa eins og tækifæri gefst á Heimsklúbbssíðuna.