25.3.04

Um hamingjuna


Aðdáandi minn, þessi eini, kvartaði yfir því að ég væri alveg hætt að skrifa hér á síðuna. Mér er nú svosem búið að detta ýmislegt í hug til að skrifa um en heilinn er eins og gatasigti eftir hor og hósta síðastliðinnar viku. Ég var búin að ákveða að skrifa um hamingjuna en maður er ekki alveg í stuði til þess þegar kvefpestin ætlar mann lifandi að drepa. En kannski er hollt að hugsa um hversu heppinn maður í raun og veru er að vera tiltölulega frískur, tiltölulega efnaður og búa í tiltölulega öruggu umhverfi. Ég held að þetta sé okkur öllum nauðsynlegt að hafa í huga og vera ánægð með það sem við höfum. Eða kannski jafnvel hamingjusöm. Mér finnst það góð aðferð að safna saman góðu stundunum eins og perlum á band. Grípa óvenju góða stund, staldra þá við og hugsa: "Núna er ég hamingjusamur/söm. Þessa stund ætla ég að muna". Smátt og smátt safnast þessar góðu stundir saman og á erfiðum stundum er hægt að taka fram hamingjuperlufestina og skoða hana. Þá líður manni strax betur. Mínar bestu stundir tengjast margar því að vera ein úti í náttúrunni og upplifa kyrrð og fegurð hennar. Hvort sem það er í Himalaya eða á Kili.

16.3.04

Hér er mynd frá Lasha. Ég veit ekki hvers vegna ég hugsa svona mikið til Tíbets þessa dagana. En Tíbet er einn af þeim stöðum sem mig langar hvað mest til að heimsækja aftur. Það er eitthvað í nándinni við himininn sem lyftir sálinni á æðra plan og það er ekki bara súrefnisskorturinn sem veldur. Munkarnir í sínum rauðu sloppum setja lit á umhverfið. Þeir eru alls staðar á ferð, hangandi á veitingastöðum og að ferðast þá puttanum um vegina. Þeir eru allt frá ungum drengjum upp í gamla menn. Þó mér þyki athyglisvert og gaman að kynnast Búddatrú og margt í hennar kenningum samræmist betur mínum hugmyndum um lífið og tilveruna get ég ekki tekið hana sem mína. Ég er vesturlandabúi, mótuð af kristinni siðfræði og menningu minni og forfeðra minna. Þess vegna finnst mér að mörgu leiti sorgleg þessi árátta í vesturlandabúum sem halda sig hafa höndlað svör við öllu með því að raka höfuðið, fara að stunda jóga og innhverfa íhugun og gerast búddatrúar. Með þessu finnst mér fólk vera að kaupa ódýra lausn frá hversdagsleikanum. Ef við erum ekki sátt við hver við erum og hvaðan við komum er eitthvað að sem setur kyrjandi í lótusstellingum bæta ekki. En ef það bætir geð einhvers að eyða sumarfríinu í Ashram á Indlandi við að læra ilmolíunudd þá verði þeim að góðu, fólk fer þó ekki í stríð á meðan. En mér má finnast það hlægilegt.

15.3.04

Ráðhildur mín! Hér er loksins tengill á heimasíðu Bubba frænda Bóa. Ég ætlaði fyrir löngu að vera búin að setja hann hér þar sem þú getur nálgast hann. Ég hef bara ekki fundið mig alveg í að skrifa hérna á þessa síðu. Samt var mikil gleði í síðustu viku þegar ég fékk nýju Bubba myndina mína. En það er ekki nema fyrir innvígða að gleðjast hjartanlega með mér af þessu tilefni.

Það hafa einhverjir spurt mig eftir nafninu á þessu bloggi mínu, hvaðan það er komið og hvað það þýðir. Í Tíbet segir fólk úti á götu:"Tashidele" þegar það mætist. Þetta er svona eins og við segjum halló eða góðan daginn. Og í Tíbet brosa allir og bukta sig því tíbetar eru fjarska vingjarnlegt fólk. Í Lasha bjó ég á Kirey hótelinu í tíbetanska hverfinu. Veitingahúsið á hótelinu heitir Tashi II vegna þess að það er útibú frá upprunalega Tashi veitingahúsinu sem nú heitir Tashi I. Þessa daga í Lasha borðuðum við alltaf morgunmat á Tashi II og líka suma daga bobi í kvöldmat. Sama þjónustustúlkan afgreiddi okkur alla dagana og hún sagðist heita Tashi. Það hefur nú sjálfsagt verið til að einfalda hlutina fyrir heimska ferðamenn. Hún gaf okkur bænatrefil að skilnaði. Ég ætlaði að láta bloggið mitt heita bara tashi en þá var einhver geðsjúklingur í Ástralíu búinn að taka það frá og spjó geðsýki sinni út á netið. Ég veit ekki hvort hann hefur verið í Tíbet.

5.3.04

Bætti við tenglum hér til hægri. Nú er ég búin að afhjúpa hver áhugamál mín eru. Þau eru fjölbreytt og skemmtileg eins og sést. Það er nauðsynlegt að hafa áhugamál. Hér er mynd af uppáhalds kvikmyndaleikaranum mínum honum Bóa. Ég hef nokkrar áhyggjur af Bóa, mér finnst hann ekki líta vel út þessa dagana. Hann er að skilja við konuna sína og er með áberandi bauga undir augunum. Ég held hann drekki of mikið, kannski bang-lassi (marijúana hrært út í jógúrt, lítur út eins og linur kúaskítur) eins og þeir drekka á Indlandi. Það er kannski skrýtið að hafa áhuga á hindí myndum hér uppi á Íslandi en eftir að hafa verið á Indlandi getur maður ekki annað en hrifist með. Yfirleitt er söguþráðurinn ósýnilegur, fólk brestur í söng og dans þegar minnst varir. Tónlistin er óskilgreinanlegur hrærigrautur indverskrar og vestrænnar tónlistar. Allir eru glaðir og góðir. Ég mæli með bestu mynd Bóa sem heitir Lagaan. Ég á hana á diski og þegar svartnættið hellist yfir horfi ég á Bóa spila krikkett og plata vondu englendingana upp úr skónum.

2.3.04

Horfði á Óskarinn í gærkvöldi í góðra vina hópi. Enginn nennti að vaka yfir auglýsingunum í fyrrinótt. Ég dáist að því hvað allar leikkonurnar eru fallegar. Ekki ófríða konu að sjá, að vísu gamlar en ekki ljótar. Það sama var ekki hægt að segja um karlana, það virðist hægt að verða frægur í Hollywood þótt þú sért ekkert augnayndi svo framarlega sem þú ert karl. Samt er verið að gera myndir um alls konar konur, ófríð glæpakvendi sem myrða og drepa. En til þess að leika þær þarf undufagrar konur sem færa gríðarlegar fórnir til að fá rétt útlit fyrir hlutverkið. Þær kannski þyngjast úr 40 kg upp í 50 kg, láta raka af sér augabrýrnar og færustu snyrtar mála þær tímunum saman. Okkur finnst þær afskaplega hugrakkar svo framarlega sem þær birtast jafn grannar og fallegar í silkikjólunum sínum við næstu verðlaunaafhendingu. Og við höldum að tímarnir hafi breyst. Þetta er eins þegar horft er á fréttirnar hér uppá Íslandi. Konurnar sem eru fréttaþulir eru allar fallegar við hungurmörk en kallarnir feitir, ljótir eða með talgalla.

1.3.04

Keypti klósettpappír til styrktar utanlandsferð unglinganna í grunnskólanum. Á honum stendur að þetta sé professional klósettpappír. Er slíkur 'atvinnumanna' klósettpappír leyfilegur fyrir amatöra? Hverjir eru atvinnumenn í því að nota klósettpappír? Er það fólk sem vinnur á barnaheimilum og elliheimilum eða eru það þeir sem hafa skeint sig daglega alla sína æfi. Þetta er nú dæmi um þau vandamál sem eru að veltast um í hausnum á mér, gáfulegt ekki satt.
Hér er tengill sem er eingöngu settur fyrir Ráðhildi systur mína. Hún er spennt fyrir kvikmyndastjörnum.