25.11.04

Mánuður til jóla

Ég er búin að ákveða:
- að láta jólaskrumið ekki fara í taugarnar á mér
- kaupa mér jólaskraut í Kaupmannahöfn
- láta mér batna kvefið
- fara a.m.k. einu sinni til Reykjavíkur fyrir jól
- senda dónalegt skammarbréf til Cambridge University Press
- hafa stórt jólatré á sveitasetri mínu
- senda jólakort
- hafa útsaumshelgi á nýju ári

Nú rekur skúringakonan mig út.

17.11.04

Nýr lærdómur

Alltaf er maður að læra eitthvað nýtt. Ég fór með Frænda nr. 1 í tannréttingar á mánudaginn. Hann átti að borga sjálfur svo hann var sendur með ávísun. Í Smáralind ætluðum við að skipta ávísuninni. Fyrst lenti ég inn í Sparisjóðinn, stúlkan sagði mér að það kostaði 150 kr. að skipta ávísun frá öðrum banka og benti mér á að fara upp á loft í Landsbankann. Við upp rúllustigann og þangað. Þar var eins og að ganga í björg, háir, gráir steinsteypuveggir mynduðu göng inn að því allra helgasta þar sem þjónar mammons útdeildu peningunum. Ég er nú ekki svo mikill sveitamaður að ég fattaði ekki fljótlega að til að komast að þurfti að ná númeruðum miða út úr kassa. Ég sá á tölvuskjá að verið var að afgreiða 210 en miðinn sem ég fékk bar númerið 224. Fjandans þurfti ég að hanga lengi í þessum steypukumbalda og hlusta á horaðan strák tala um seinasta fyllerí í símann bara til að spara 150 kr. En fyrst ég fékk sæti á svörtum leðurkubbi ákvað ég að hinkra. Gjaldkerarnir voru tveir og annar afgreiddi 210 meðan hann talaði í símann, sendi hana bakvið og tafði almennt tímann. En hinn gjaldkerinn spændi áfram því flestir virtust hafa tekið númer og farið eitthvað annað. Svo að eftir drjúga stund komst ég að og lagði fram ávísunina. "Það kostar 150 kr. að skipta ávísun eftir kl. fjögur en það er ókeypis að leggja peningana inn á reikning hjá okkur" sagði stúlku greyið. Ég horfði á hana og gat ekki gert að mér kíma svolítið. "Ég ætla nú að nota peningana svo ætli ég verði ekki að spandera 150 kr. í að skipta ávísuninni" sagði ég og tók við 29.850 og gekk út. Ekki spurði hún mig um skilríki þó ég væri ekki útgefandi að ávísuninni og hefði skrifað nafnið mitt aftan á hana í hinum bankanum. Lærdómurinn af sögunni er sá að reyna aldrei að spara 150 kr. í bankaviðskiptum.

12.11.04

Fullorðið fólk að þykjast vera börn

Þegar ég var yngri en ég er nú tók ég alveg út fyrir að horfa á fullorðna leikara þykjast vera börn í barnaþáttum í sjónvarpinu. Þetta fólk lætur alltaf eins og börn séu vangefin og tali eins og bjánar. Mín reynsla er sú að börn eru gáfaðast og skemmtilegasta fólk sem ég hitti. Enda finnst mér gaman að tala við börn því þau segja mér alltaf eitthvað ferskt og skemmtilegt um allt mögulegt. Einn vinur minn 10 ára sem stundum kemur í heimsókn horfir alltaf á fréttirnar vegna þess að "maður verður að fylgjast með því sem er að gerast í heiminum" og við ræðum oft um þessar hörmungar sem dynja á mannfólkinu og valda hugsandi fólki áhyggjum. Enda fannst mér hugmyndin góð um að börnum yrði veittur kosningaréttur, þau sjá nefnilega einföldustu lausnina á hverju máli, eru hreinskilin og myndu kjósa eftir sannfæringu sinni. Og þá yrði áreiðanlega ekki verkfall í skólum landsins vikum saman.

9.11.04

Nýtt líf

Ég er nýbökuð móðursystir enn og aftur. Síðastliðinn fimmtudag kom í heiminn myndarlegur frændi, heimsins fallegasta barn að allra áliti sem nálægt honum standa. Hann liggur bara þarna og veifar sínum löngu mjóu puttum og stóru höndum og öllum finnst hann frábær. Mikið er auðvelt að vekja athygli meðan maður er á þessum aldri. Stóra systir hans er alveg dolfallin og stúlkan sem aldrei hefur leikið sér í dúkkuleik getur nú ekki slitið sig frá þessum agnarlitla bróður. Bræðurnir geta nú ekki sýnt hrifningu sína eins augljóst, þeir eru nú einu sinni unglingar. Pipruðu frænkurnar halda aftur á móti ekki aftur af hrifningu sinni og geta ekki hætt að dást að litla undrinu. Þessi drengur kemur svo sannarlega ekki til með að þjást af athyglisskorti.

8.11.04

Aaaarg ísdrottningin manar mig!!!

Fyrst búið er að setja síðuna mína sem link hjá frúnni á 57 þá er nú best að setja eitthvað nýtt og ferskt hér út á netið. Ég er nú svosem búin að hugsa um ýmislegt síðan ég kom því í verk að blogga síðast. T.d. er mánudagur í dag, nú um stundir hátíðisdagur í lífi hvers sanns konungssinna eftir að ríkið fór að sýna heimildarmyndaflokkinn um afkomendur tengdaföður Evrópu. Þvílík gleði, þvílík nautn. Komið heim úr leikfiminni, gleypt í sig hakkebøf eða annað álíka danskt til þess að vera búin að taka mér stöðu framan við nýja sjónvarpið (ekki eingöngu keypt með þessa þætti í huga) með kveikt á rauðhvítu kertunum og setið með sæluhroll niður eftir bakinu. Ekki nema sannir áhugamenn um dönsku konungsfjölskylduna skilja þessa gleði. Að vísu eru sumir búnir að vera mjög niðurdregnir útaf þessu með hann Jóakim og hana Alexöndru. Stelpukjáninn að nenna ekki að vera gift áfram og hann sem er prins. Skítt með það að hann er alltaf úti á fylliríi og kvennafari í stað þess að vera heima og hygge sig með konu og börnum. Maðurinn er þó prins og þægilegt að hafa þjóna á hverjum fingri. Ef sett er á vogaskálar annars vegar höll og þjónustulið og hins vegar eiginmaður sem er glaumgosi væri ég ekki í vafa hvort yrði fyrir valinu. En Alexandra heldur væntanlega þjónunum og losnar við kallinn svo þetta er ekkert nema framför hjá henni. En við sem ætluðum að bjóða þeim konungdæmið á Íslandi og hætta með þetta asnalega forsetaembætti.