20.10.05

Uppáhalds borgirnar mínar. Nr. 3 Helsinki

Helsinki er í raun tvær borgir. Sú sem birtist manni í 30° frosti í janúar og sú sem maður upplifir í 30° hita í júlí.
Janúarborgin er grá og köld. Fólk er kappklætt að flýta sér í og úr vinnu. Enginn staldrar við á ferðum sínum, allir virðast vera að flýta sér eitthvað annað en þangað sem þeir eru. Í sporvögnunum sitja rónarnir og þiðna eftir útiveru næturinnar, í stórum frökkum úttroðnum af dagblöðum. Smátt og smátt berst lyktin af þeim um vagninn þangað til miðaeftirlitskonurnar henda þeim út í kuldann aftur. Ég bjó í úthverfi og kom í lestinni á hverjum degi, lestin skældist til og frá á frosnum teinunum sem illa náðu saman vegna þess hvað járn dregst saman í kulda. Fólkið var frosið og passaði sig á að tala ekki við nokkurn mann. Nema ef maður fór heim með síðustu lest um helgar þá voru allir meira og minna góðglaðir og kjaftaði á þeim hver tuska.
Frá aðaljárnbrautarstöðinni fór ég gegnum undirgöngin á áttina að háskólanum. Finnskar skrifstofukonur ganga mjög rösklega, allar í dökkleitum drögtum og skynsamlegum konuskóm. Þetta hraða, ákveðna göngulag bergmálaði í undirgöngunum þar sem þær skunduðu allar hver til sinnar skrifstofu. Í Helsinki snjóar en snjórinn helst kyrr þar sem hann fellur. Ruðningsdeild borgarinnar kemur og keyrir hann út í sjó og svo eru göturnar greiðfærar það sem eftir lifir vetrar. Í hverfinu mínu var byrjað á að ryðja gangstéttarnar að járnbrautarstöðinni og síðan ef tími vannst til voru göturnar ruddar. Enda datt engum í hug að fara á bíl í vinnuna.

Fyrsta maí kemur sumarið til Helsinki. Allt í einu birtist fólk í skærlitum fötum, öll veitingahúsin stilla upp borðum og stólum á gangstéttinni og þar situr fólk með bjórglös í hendi sem spjallar saman og skemmtir sér. Trén og grasið verður grænt og nýstúdentar með hvítar húfur fara syngjandi um á vörubílum, lúðrasveit leikur á Esplanadi, ferjurnar koma fullar af túristum, það eru seld ný jarðarber á sölutorginu og bátarnir koma utan úr skerjagarðinum með nýveidda síld. Enginn er að flýta sér nema ef vera skyldi út úr borginni í sumarhúsið. Borgin er græn og falleg, alls staðar tré og blóm, fólk baðar sig sjó og vötnum og allar konur fara með tuskumotturnar sínar á þar til gerð þvottaplön til að þvo þær. Þá er gaman að ganga um göturnar í gömlu hverfunum þar sem sjá má bestu dæmin um rússneskan jugend-stíl í byggingarlist. Enda lék Helsinki hlutverk rússneskra stórborga í njósnaramyndum hér áður fyrr. Það er hægt að taka ferju út í eyjarnar, liggja þar í grasinu og horfa upp í himininn eða út yfir hafið. Sumarið er tíminn þegar borgin lifnar við og allt er að gerast. Þá er gaman að vera í Helsinki.

Heimasíða Helsinkiborgar

17.10.05

Uppáhalds borgirnar mínar. Nr. 2 Katmandú

Ég man eftir koma inn til borgarinnar í ljósaskiptunum og sjá allt fólkið, hundana, nautgripina, bílana, mótorhjólin og sjá hvernig myrkrið færðist yfir borgina.
Ég man eftir að sitja uppi á þaki á hótelinu og hlusta á andardrátt borgarinnar sem barst í húminu við sólarlag, fuglarnir sveimandi yfir og bænaflöggin blaktandi á þökum húsa tíbetanna.
Ég man eftir hljómnum frá musterinu á morgnana þegar fólk sló í bjöllu og færði guðunum kókoshnetu, blóm eða eitthvað annað fallegt.
Ég man eftir að sitja í tröppunum og horfa yfir Durbar torg og tala við nepalskan náunga sem bara vildi spjalla, ekki selja mér neitt.
Ég man eftir að villast í hvert skipti sem ég ætlaði að ganga frá Thamel að aðalpósthúsinu, hvernig göturnar liggja einhvern veginn í allt aðra átt en maður heldur.
Ég man þegar rafmagnið fór af á hverju kvöldi þegar dimmdi á þeim tíma þegar allir voru með jólaseríu úti í glugga á ljósahátíðinni.
Ég man eftir götusölunum sem allir buðu það sama: skipta peningum, hass og tiger balm.
Ég man eftir hvítu nauti með rauðmáluð horn liggjandi á miðju hringtorgi og umferðinni í kringum það.
Ég man risastóru leðurblökurnar hangandi í trjánum umhverfis konungshöllina.
Ég man biðröðina í garðinum við indverska sendiráðið tvo heila daga, hvernig allir voru eins og gamlir vinir þegar þeir hittust aftur eftir viku til að sækja vegabréfsáritunina.
Ég man hversu grasið í garðinum við Hótel Ambassador var grænt og vandlega hirt.
Ég man sjóræningjaeintök af amerískum bíómyndum sýndum með tælenskum texta í neplskum veitingahúsum.
Ég man tveir fyrir einn tilboð á grænum, bláum, gulum og rauðum kokkteilum á veitingahúsinu á horninu rétt hjá Katmandu Guesthouse.
Ég man eftir Bufflasteikinni á Everest steikhúsinu, hún stóð svo sannarlega undir væntingum eftir tveggja mánaða núðluát í Kína.
Ég man eftir mönnunum með fótstignu saumavélarnar að bródera hvað sem fólki datt í hug á stuttermaboli.
Snoðrakaða vesturlandabúa að þykjast vera búddamunkar.
Líkbrennslueldana við ána.
Hunda með blómakrans.
Hjólakerrurnar, ruslahaugana, verslanirnar, manngrúann, lyktina, hávaðann, óreiðuna.......

Heimasíða Katmandu

13.10.05

Uppáhalds borgirnar mínar. Nr. 1 Damaskus

Damaskus (arab. Esh Sham eða Dimashq) höfuðborg Sýrlands. Íbúar eru um 6 milljónir. Damaskus er af mörgum talin sú borg heims sem samfelld byggð hefur lengst staðið, frá þriðja árþúsundi fyrir Krist.

Ég veit ekki hvers vegna ég tel Damaskus sem mína uppáhalds borg. Kannski vegna þess hversu mikið hún kom mér á óvart. Þær fréttir sem við heyrum frá Mið-Austurlöndum eru yfirleitt af ófriði og vígaferlum ekki af friðsamlegu lífi venjulegs fólks. Það er eitthvað svo notalegt að ganga um göturnar í Damaskus. Fólkið er vingjarnlegt án þess að vera uppáþrengjandi, markaðurinn litskrúðugur og fjölbreytt vöruúrval. Leigubílarnir klesstir og beyglaðir. Það verður að viðurkennast að næturlífið er ekki upp á marga fiska, bærinn dauður kl. 10:00 á kvöldin. Ég man eftir að við reyndum að komast inn í magadansklúbb sem leit mjög spennandi út utanfrá séð prýddur myndum af kynþokkafullum dansmeyjum. En inni voru engir viðskiptavinir, ekkert að drekka nema gosdrykkir og engar magadansmeyjar sjánlegar svona á virkum degi. Svo næturrandinu var sjálfhætt.
Það sem enginn má láta fram hjá sér fara í Damaskus er Omayyad-moskan og Bazarinn. Einnig er mjög heillandi að ganga um gamla bæinn, skoða mannlífið og húsin.

Heimasíða Damaskus

Tilgangur þess að blogga

Eins og flestir hafa séð hefur þetta blogg verið í tilvistarkreppu. Ég nenni ekki að skrifa um mitt daglega líf, ég er svo skipulögð og vönd að virðingu minni að ég lendi ekki í neyðarlegum uppákomum eins og svo margt kvenfólk skrifar um. Ég er svo félagsfælin að ég nenni helst ekki að hitta annað fólk svo ekki get ég sagt frá undarlegu háttarlagi mannanna. Hvað er þá sérstakt við mig? Jú ég hef kannski komið á fleiri staði í heiminum en meðal Íslendingurinn. Svo ég er búin að ákveða að skrifa um uppáhalds staðina mína í heiminum.

12.10.05

Ætli það hafi ekki liðið nógu langt núna

til að allir séu hættir að reyna að lesa þetta blogg. En ég verð að reyna að tjá mig hér því núna er ég með KVEFIÐ eina ferðina enn svo ég get ekki talað nema með harmkvælum. Ég endaði á því að fara til læknis í gær og hann var mjög indæll og vildi endilega lækna mig. Ég hef nefnilega verið þannig í mörg ár að byrja daginn á því að snýta upp úr mér alveg ótrúlegu magni af óhroða. Ég vil meina að þetta sé krónískar slímhúðarbólgur sem ég smitaðist af í Kína árið 1994. Þar eru allir nefnilega síhrækjandi út úr sér ógeðinu og slummurnar liggja út um allt. Ég ræddi um þetta vandamál fyrir mörgum árum við gamla lækninn okkar en hann sagði að þetta væri ólæknandi og maður yrði bara að lifa við þetta og það er ég búin að gera þar til í gær að ég hitti lækni sem óður og uppvægur vildi lækna mig. Ég kom heldur betur hróðug til baka í vinnuna búin að fá uppáskrifað hrossapenisílin og stera og hélt ég væri búin að koma mér upp alvöru veiki. Þetta er merkilegt fyrir manneskju sem ekki fannst í tölvunni á heilsugæslustöðinni vegna þess að ég hef ekki komið þar frá því að tölvukerfið var tekið í notkun. Samstarfskonur mínar voru nú fljótar að slá á þetta mont mitt, þær þekktu allar einhvern sem hafði fengið alvarlegri veikindi og þurft í aðgerð og þurft að bora gat á andlitið til að hreinsa út. Svo ég fór bara heim með meðölin mín og afskaplega venjulegt kvef.