21.2.04

Núna erum við að skoða heimasíðuna mína í Kotinu.

19.2.04

Ég sauma út. Ég er fíkill. Ég framleiði gagnslausa sófapúða í haugum. Allir sem ég þekki eiga sófapúða frá mér. Þeir vilja ekki fleiri. Hvað á ég að gera við þann sem ég er að sauma núna? Ég held það sé saumað í gegnum mig. Föðursystir mín sem bjó í sama húsi stundaði hannyrðir alla sína æfi. Saumaði harðangur og klaustur, krossspor, góbelín jafnt úttalið sem ámálað. Hún sat alltaf inni í horni í svefnherberginu og útvarpið var í gangi inni í stofu. Það þurfti að hafa útvarpið frekar hátt stillt til að hún heyrði útvarpssöguna eða hvað það nú var sem var í gangi. Uppi á lofti leigði gamall maður sem var mjög heyrnardaufur. Hann stillti útvarpið líka mjög hátt. Ef maður átti leið hjá á kvöldin sá maður hvernig húsið sveigðist eftir látunum í útvarpinu. Og nú sit ég þarna inni og sauma. Ég hef sjónvarpið í gangi en horfi næsta lítið því einbeitingin er öll á krosssaumsmunstrunum. Það er óþolandi þegar eru myndir með einhverju óskiljanlegu tali því þá veit ég aldrei hvað er að gerast. Áður en ég flutti gerði ég næsta lítið af því að stunda handavinnu en núna finn ég hvernig fíknin hellist yfir mig. Það hlýtur að vera blessunin hún frænka mín sem stjórnar þessu að handan.

17.2.04

Bandaríkjamenn lentu á Mars.

Þegar maður er sjálfur byrjaður að skrifa svona fer maður ósjálfrátt að lesa blogg annarra. Mér finnst margir vera að þessu til að ausa út neikvæðni og svartsýni. Það er sjálfsagt gott og blessað, þeir eru þá ekki að svekkja sína nánustu með þessu. En ekki nenni ég að lesa svartagallsraus úr einhverju fólki sem ég þekki ekki neitt. Það er gaman að lesa hvað krakkar og unglingar eru að skrifa, þau stunda auðsjáanlega mikla nýsköpun í íslensku máli. Þá þarf maður ekki að hafa áhyggjur, mál sem er í þróun er lifandi mál. Ég er nefnilega ekki mikið fyrir málhreinsun og íhaldsemi í tungumálinu. Mér finnst fyrir mestu að fólk geti tjáð sig á sem fjölbreyttustu máli og án þess að japla og jamla. Því miður eru allt of margir sem ekki kunna að tjá sig og vantar tækin til að orða hugsun sína. Það er vandamálið en ekki það að krakkar skrifa gegt fyrir geðveikt, dingla í staðinn fyrir að hringja og segja mér langar. Þeir sem erfiðast eiga að tjá sig, a.m.k. í sjónvarpinu eru yfirleitt þeir sem eru að tjá sig um sérgrein sína eftir margra ára háskólanám. Þegar fólk getur ekki tjáð sig skammlaust um sitt sérfag þá er eitthvað að. Þetta fólk talar auðheyranlega ekki nógu mikið.

16.2.04

Ákvað að láta mitt annað sjálf koma fram undir nafni. Frétti að til væri fólk sem les skrif mín. Frábært þá get ég komið sannindum á framfæri sem ég hef komist að smátt og smátt á þessum árum sem ég hef verið hugsandi manneskja. Stundum hef ég komið með stórar yfirlýsingar um að fólk sé fífl og óneitanlega hef ég gerst andfélagslegri með aldrinum. Það er mikið talað um hvað fólk er orðið latt í félagsmálum. Mér finnst það mjög skiljanlegt. Mér finnst þægilegast að eiga vini í sjónvarpinu. Þá get ég verið þátttakandi í lífi þeirra og armæðu að vissu marki en síðan þegar það er orðið óbærilegt hugsa ég bara djö.. fífl er þetta pakk og slekk á því. Ekki hægt með lið sem er í heimsókn.
En fólk er líka nauðsynlegt því allir eru í raun hópsálir, lika ég. Og það er nauðsynlegt að eiga góða vini og að rækta vináttuna við þá. Gaman að skipuleggja og eiga góðar stundir í góðra vina hópi. Það gerði ég um helgina og vaknaði með bros á vör við vekjaraklukkuna rúmlega sjö í morgun enn ánægð eftir góða helgi við glaum og gleði.
Hér er mynd af okkur vinkonunum niðursokknum í verkefni helgarinnar.

Þeir fundu Nemo

13.2.04

Föstudagur myrkur og rigning. Geyspa svo mikið að tárin eru farin að renna niður kinnarnar. Allur snjórinn að verða horfinn og allt að komast í venjulegt horf um veðurlag í febrúar. Hef stundað undirbúning fyrir handavinnuhelgi. Búin að vera með tilraunaeldhús í gangi síðustu vikuna, fór á bókasafnið og fékk lánaðar matreiðslubækur. Langt síðan ég hef lagt svona mikið á mig fyrir veisluhöld. Þetta setti ég bara vegna þess að einhverjir af væntanlegum gestum gæti lesið þetta og það er eins gott að fólk sjái að maður hefur fyrir því. Þetta kom ekki vel út. Stelpur mínar þetta er hrein ánægja.
Ég er loksins búin með Landnemann mikla. Það er mjög góð bók en fjarskalega eru nú margar blaðsíður í henni. Seinna bindið var á skammtímaláni á bókasafninu, ég var óneitanlega lengur að lesa hana. Ég hef styrkst í ákvörðun minni að fara til Kanada einhvern daginn.
Annars er ég í flækju yfir því hvert ég á að fara og hvað ég á að gera í sumar. Ég er eiginlega hætt við Langbortistan. En hvað á ég að gera annað. Mig langar til útlanda en hvert ó hvert???? Það er ekki alltaf auðvelt að geta gert hvað sem er. Endar allt of oft með að maður gerir ekki neitt.
En helgin verður áreiðanlega skemmtileg.

9.2.04

Rigning og hláka. Allt orðið að svelli. Hvers vegna getur snjórinn ekki verið kjur þegar hann er nú einu sinni kominn? Fékk gerfitönn hjá tannlækninum og var fegin að sleppa út með hausinn fullan af blóði og munninn af sílikoni. Hvaða ár var það aftur sem Sílikon fann upp kíttið? Þessi er gamall ég veit ekki af hverju mér datt hann í hug. Sjálfsagt deyfingin að fara úr kjammanum á mér. Er búin að svara í símann í allan dag, með því leiðinlegra sem ég geri. Er yfirleitt svo niðursokkin í það sem ég er að gera að eilífar símhringingar valda því að ég geri ekki neitt annað því ég tapa yfirleitt þræðinum. Varð þess heiðurs aðnjótandi að vera kosin í stjórn starfsmannafélagsins á föstudaginn.

Hamingjusamir stjórnarmenn

Núna er ég byrjuð að sauma út einhyrning í garðinum. Stundaði heimsóknir um helgina. Það var mjög gaman að hitta vini sína og maður gerir ekki nóg af því. Ég er stundum að hugsa um að gerast eins og gömlu konurnar sem heimsóttu pabba í gamla dag. Þær tóku sér viku tvisvar á ári til að heimsækja gamla vini og ættingja. Komu bara og gistu og voru í nokkra daga. Ég held það yrði upplit ef ég mætti í heimsókn til fólks í Reykjavík og segðist ætla að vera í 3 daga. Því ekki myndi ég stoppa lengur því eins og segir í Hávamálum: Ljúfur verður leiður ef lengi á annars fletum situr.
Gott í bili.

6.2.04

ÉG var búin að skrifa langt mál með tengli í mynd og allt en tókst að týna herlegheitunum og nenni ekki að skrifa það aftur. Enda var það mjög neikvætt og öll neikvæðni á best heima í ruslakörfunni. Fallegur, bjartur vetrardagur og komin helgi, hvað getur verið betra?

Jæja komin helgi aftur allt of fljótt. Var kosin í stjórn starfsmannafélagsins.Þetta er nú meira hvað fólk vill troða mér í félagsmál og ég sem er algerlega á móti því að umgangast annað fólk. Ég vil bara eiga vini í sjónvarpinu, tegundina sem maður getur slökkt á þegar þeir eru leiðinlegir. Eða kannski er ég geðklofi því ég er búin að bjóða vinkonum á handavinnuhelgi í sumarbústað um aðra helgi og hlakka mikið til. En sumir eru nú skemmtilegri en aðrir. Það er bara málið að með aldrinum hættir maður að nenna að kynnast nýju fólki og sér líka betur hvað fólk er undarlega innréttað. En nú ætla ég að fara í búðina og heim. Kannski dreg ég ryksuguna fram, stórt kannski. Nóg í bili.

3.2.04

Ég er nú að verða forfallin í html pælingum, nenni ekkert að skrifa en er alltaf að fikta í template settings. Var ekki ánægð með íslenskuna á letrinu sem var og breytti því um. Setti inn link á heimasíðu Survivor enda forfallinn veruleikasjónvarpsfíkill. Þó fólk eigi bágt með að trúa því um miðaldra kellingar. Það er alltaf sami norðangarrinn í veðrinu, ég nenni ekki í sund dag eftir dag vegna þess að mér finnst vera of kallt. Best að setja annan myndalink hér. Sumir verða kannski ekki kátir yfir að vera komnir á netið með fýlusvip.

2.2.04

Jæja best að reyna að halda þessu áfram. Kominn mánudagur og gott að vera komin í vinnuna. Helga búin að boða komu sína á krosssaumshelgina. Asnalegt að skrifa orð með 3 s-um. Las á Aldísarbloggi allt um ævintýri hennar í Zagreb. Fékk kast af ferðaöfund. En letin er meiri svo ekki fór ég að bóka mig til Tashkent. Geri það sjálfsagt ekki á þessu ári. Fer nú bráðum að segja einhverjum frá þessu fikti mínu. Nú ætla ég að reyna að setja inn mynd.Frábærlega gaman í grillveislu hjá okkur systrum.